108498702672550005

Í dag dvaldi ég í sex klukkustundir á Kópavogshæli. Hvað maður gerir ekki fyrir smá pening. Á morgun er frídagurinn sem páskarnir gleymdu: Uppstigningardagur. Eins og lesendur þessa bloggs ættu að vera búnir að geta sér til fyrir löngu (borið fram a’launngu) hef ég aldrei verið neitt sérstaklega kátur, þegar mér er fyrir skipað að leggja niður verkfæri mín og fara heim, á degi sem er í engu frábrugðinn öðrum dögum, að öðru leyti en því að hann heitir einhverju spes nafni.
Í þetta eina skipti er ég raunar nokkuð sáttur við að fá einn frídag. Ég er feginn vegna þess að ég hef misst niður svefn undanfarið og verður morgundagurinn kjörinn til að bæta úr því. Best hefði verið ef uppstigningardagurinn hefði verið á föstudaginn, er það ekki? Hvernig væri nú að dagatalsgjörðarmennirnir tækju nú loksins upp á því, fyrst þeir vilja nú á annað borð troða inn einhverjum frídögum, að hafa þá alltaf á föstudögum eða mánudögum? Það held ég að hentaði öllum betur.
Hvað er annars málið með t.a.m. páskana? Hvers vegna eru þeir aldrei á sama degi, eins og jólin? Mér eldri og vitrari menn tjá mér að pálmasunnudagur sé alltaf á fyrsta föstudegi apríl, eða eitthvað í þá áttina (nei, ég skammast mín ekki fyrir „fáfræði“ mína á þessu sviði!). Hvers vegna? Spyr sá sem ekki veit. Annars er mér nokk sama. Það sem pirrar mig við páskana sem frí er að ég veit aldrei hvenær þeir eru. Svo koma þeir. Nei, ég vil hafa mína frídaga fastneglda við einhverja ákveðna dagsetningu.