Draumfarir

Laddi tekur alltaf þátt í mottumars
Margt dreymir mann skrýtið, til dæmis um daginn þegar ég var staddur aftan í flutningabíl ásamt heimsþekktum spámiðli sem vildi ginna mig í kynlífsleik með sér og stærðarinnar mannapa (þó ekki beinlínis górillu).

Í nótt var það þó öðruvísi. Þá dreymdi mig að ég væri staddur í Bandaríkjunum, að líkindum, og mætti púmu úti á götu einsog það hét í draumnum, reyndar líkari svörtum pardus. Til að forða öðrum frá fjörtjóni slóst ég við púmuna og hafði undir, en ekki fyrr en hún hafði slegið sundur rifkassann í mér með hramminum svo beinin stóðu út um síðuna.

Ég gekk heim á leið og hafði þvínæst samband við neyðarlínuna, sallarólegur, til að tilkynna þeim um benjar mínar og biðja um sjúkrabíl. Leið og beið uns bíllinn kom og við stýrið sat Laddi, skartandi fínu yfirskeggi. „Er allt í lagi félagi?“ spurði hann, svo hin einstaka Laddarödd bergmálaði í vitund minni. „Jájá,“ sagði ég, „en ég þarf að komast á næsta sjúkrahús.“ „Græjum það,“ svaraði Laddi og vísaði mér aftur í bílinn.

Fyrri drauminn ræð ég fyrir því að bráðum muni uppgötvast óþekkt apategund sem vafasamir einstaklingar muni reyna að notfæra sér til sinna eigin ískyggilegu meðala, en þann hinn síðari ræð ég svo að mér sé hollast að taka ekki þátt í mottumars í ár.

Fótbolti

Hér sit ég, mæni á England – Frakkland og get ekki einbeitt mér að leiknum vegna þess að einhverjir karlar eru alltaf blaðrandi einhverja vitleysu yfir honum. Hér er ein spekin sem annar þeirra lét rétt í þessu út úr sér: „Málið er, að hvorugt liðið vill tapa þessum leik, og þess vegna …“ Auðvitað vill hvorugt liðið tapa leiknum. Annars væri enginn leikur!

Hvers vegna eru alltaf einhverjir karlar fengnir til að tala út í eitt yfir þessum fótboltaleikjum? Er hinn meðaláhorfandi of vitlaus til að skilja hvað er að gerast? Það eina sem lýsendurnir geta sagt er: Þarna fer boltinn í markið, eða: Þarna fór boltinn ekki í markið. Ég held við getum öll verið nokkuð sammála um að við þurfum ekki einhverja sérfræðinga í fótboltafræðum til að segja okkur hvenær það er mark og hvenær ekki.

UPPFÆRT
England var að skora. Datt í hug að láta ykkur vita ef ske kynni að þið (sem eruð að horfa á leikinn) séuð of heimsk til að skilja það.

Að sjálfsögðu þurftu lýsendurnir að segja svona tuttugumilljónsinnum að England hefði skorað – svo það færi nú ekki framhjá neinum.

UPPFÆRT
Nauts! Bara „hendi“! Alltaf þegar það er dæmt hendi langar mig til að taka exi og lemja í talvuskjáinn minn.

UPPFÆRT
Alveg elska ég þegar lýsendurnir leggja leikmönnum, og þó sér í lagi dómaranum, orð í munn. Dæmi: Nei, segir hann. Hingað og ekki lengra, nú færðu rautt spjald góurinn.

UPPFÆRT
„Eins gott að vera vakandi þessar síðustu mínútur svo það glatist ekki allt, allt sem þeir hafa unnið fyrir með svita, og og … já!“

„Zidane setti boltann inn alveg hreint bara!“

UPPFÆRT
2-1 fyrir Frakklandi. Hvern hefði grunað það? Ég verð þó að taka það fram að úrslitin hefðu algjörlega farið framhjá mér ef ekki hefði verið fyrir hina haldgóðu og traustu lýsendur.