Kosningar og næturdrama

Ekki komu úrslit kosninganna mér á óvart, en ég er ánægður með niðurstöðurnar. Sérstaklega þótti mér fyndið að Ástþór hlaut talsvert minna fylgi núna en 1996.
Úrslit fótboltaleikjana beggja, þ.e. í dag og í gær, komu mér hins vegar á óvart, jafnvel þó þau hefðu ekkert endilega átt að gera það, en ég á til að láta eins og spjaldaður ítali þegar óvænt fótboltaúrslit ber að garði.

Í gærkvöldi fékk ég heimsókn frá ölvuðum nágranna mínum, fertugum að aldri. Varð mér hugsað til Hávamála:

Elds er þörf
þeim er inn er kominn
og á kné kalinn.
Matar og voða
er manni þörf,
þeim er hefir um fjall farið

Sté hann fyrir þröskuld inn og lét illa. Af þeim ástæðum vísaði ég honum út. Út fór hann, sofnaði í stigaganginum og varð að gjalti. Varð mér þá aftur hugsað til Hávamála:

Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé mannvit mikið.
Vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.

Ekki get ég sagt að ég beri mikla virðingu fyrir honum eftir atvik gærkvöldsins. Var fólk almennt ekki skelkað við hann, þrátt fyrir digurbarkaleg mannalæti. Skulum við aldrei minnast á þetta aftur.

Annars mæli ég með laginu Coney Island Baby með Lou Reed. Þetta er eitthvað fyrir alla áhugamenn um flott, en mínímalískt, gítarspil.