109353419102418966

Mér miðar vel áfram í þeirri viðleitni minni að gerast uppáhaldsnemandi allra kennara minna (að íþróttakennaranum undanskildum). Fröken Þormar, hagfræðikennari, var frá sér numin af ánægju er við Skúli spurðum hvort við fengjum að læra um þá Adam Smith og Milton Friedman. Spurði hún mig meðal annars hvers vegna ég væri ekki á hagfræðikjörsviði. Ég vona að frökenin geri sér ekki of miklar væntingar til vitneskju minnar um hagfræði, en að því undanskildu að ég veit hverjir Adam Smith, Milton Friedman og John Keynes eru, er hún engin.
Nú, sögukennarinn stoppaði mig eftir tíma til að halda áfram spjalli voru um þjóðtungu Býzansríkisins og sjálfsagt hef ég fengið prik í íslensku fyrir spjátrungslegar athugasemdir mínar um Gísla sögu, fyrsta málfræðinginn, kýrillíska stafrófið (rúnaletrið frekar!) og Hrein Benediktsson.

Njála lofar góðu. Ekki jafn lengi að byrja og svo margir hafa haldið fram við mig. Í raun og veru byrjar hún strax í upphafi (ég bara varð að segja þetta).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *