109362362609654687

Meira um holdarfar, en íþróttakennarafélag Íslands vill þröngva daglegri íþróttaiðkun upp á íslenskt skólafólk, því forsvarsmenn þess hafa áhyggjur af holdafari íslenskra ungmenna. Þá spyr ég: Á skólinn ekki að snúast um menntun fremur en líkamlegt atgervi? Hvað koma íþróttir menntun við? Ef fólk hleypur í spik, þá er það agavandamál sem það sjálft þarf að stríða við. Það, eða að það ræður engu um það. Hefur einhver einhvern tíma grennst vegna íþróttatíma í skóla? Held ekki. Þeir stunda sport sem það vilja og hinir fengu að vera í friði ef ég fengi einhverju um það ráðið. Eflaust munu flestir vera mér ósammála um þetta.

Enn einu sinni hafa hjaðningaél Heimdellinga ratað inn á síður Morgunblaðsins, þrátt fyrir að öllum sé raunverulega sama um þeirra innan„flokks“mál, nema frá séu dregnir Heimdellingarnir sjálfir. Ekki fæ ég séð að það varði hinn almenna lesanda Moggans neinu hvað gjörst hefur á síðasta stjórnarfundi Heimdallar, eða að hinn almenni lesandi bíði með öndina í hálsinum eftir nýjustu fregnum af blaktandi gunnfána Bolla Thoroddsen gegn félögum sínum, og orðaskaki því, sem þeirra fer í millum.

109355486752211846

Mér finnst merkilegt hvað fólk virðist hafa rosalegan áhuga á Supersize Me, myndinni um gaurinn sem borðar eingöngu McDonald’s í heilan mánuð. Gerir fólk sér grein fyrir því að það er að fara að horfa á gaur borða í 90 mínútur? Svo vita allir hvernig hún endar: Gaurinn verður feitur og drepst nærri því úr næringarskorti (eins og það kemur á óvart!). Ekki skil ég þann mann sem þætti þetta peninganna virði, og án þess að ég telji mig sérstaklega þurfa að taka það fram, ætla ég ekki að sjá þessa mynd. Ég las allt um málið fyrir löngu og mér þótti það heldur ekkert sérlega merkilegt þá.

109353419102418966

Mér miðar vel áfram í þeirri viðleitni minni að gerast uppáhaldsnemandi allra kennara minna (að íþróttakennaranum undanskildum). Fröken Þormar, hagfræðikennari, var frá sér numin af ánægju er við Skúli spurðum hvort við fengjum að læra um þá Adam Smith og Milton Friedman. Spurði hún mig meðal annars hvers vegna ég væri ekki á hagfræðikjörsviði. Ég vona að frökenin geri sér ekki of miklar væntingar til vitneskju minnar um hagfræði, en að því undanskildu að ég veit hverjir Adam Smith, Milton Friedman og John Keynes eru, er hún engin.
Nú, sögukennarinn stoppaði mig eftir tíma til að halda áfram spjalli voru um þjóðtungu Býzansríkisins og sjálfsagt hef ég fengið prik í íslensku fyrir spjátrungslegar athugasemdir mínar um Gísla sögu, fyrsta málfræðinginn, kýrillíska stafrófið (rúnaletrið frekar!) og Hrein Benediktsson.

Njála lofar góðu. Ekki jafn lengi að byrja og svo margir hafa haldið fram við mig. Í raun og veru byrjar hún strax í upphafi (ég bara varð að segja þetta).

109346563382579866

Ég er að leka niður af þreytu eftir að hafa verið á þönum um allt í tæplega tólf klst. Í kvöld verð ég heima, sama hvað dynur á. Mér hlýtur að takast að vera heima a.m.k. eitt kvöld. Mér er jafnvel farið að finnast ég ekki eiga neitt heimili, nema þá kannski til að sofa, en það er ekki meira en ég get sagt um rónakommúnurnar niðri í bæ.

Ekkert merkilegt gerðist í skólanum, ekkert merkilegt gerðist í vinnunni, símanum mínum hefur verið lokað og ég nenni ekki að borga reikninginn. Ef ég get fengið það af mér mun ég kannski borga hann en biðja um að síminn verði eftir sem áður lokaður. Ef ég get fengið það af mér …

Ekki veit ég hvað málið er með Moggann í dag; hann hefði allt eins getað verið mánaðarrit íslenska Clintonvinafélagsins (nei, það er ekki til). Fokk! Ég ætti kannski að reyna að skrifa eitthvað af viti. Þetta diss á Moggann er komið úr öllu góðu hófi fram.

109337092378657902

Annasamur dagur í dag. Skólinn var settur með pompi og prakt á slaginu níu í morgun. Ekki nenni ég að fara ofan í saumana á því máli, en ég er alltént ánægður með að vera kominn aftur í skólann.

Keypti Frank’s Wild Years með Tom Waits í Hagkaupum á kr. 990 íslenskar. Það kalla ég kjarakaup!

Keypti mér töff hatt í Hattabúð Reykjavíkur og fór svo í Blóðbankann, hvar ég lét tappa af mér.

Það sem eftir er af degi mun ég taka því rólega og lesa Njálu. Hið fyrra mun fyrirskipað af starfsfólki Blóðbankans, en hið seinna mun fyrirskipað af kennara mínum. Ekki að það þurfi mikið að þvinga mig til lestursins, onei.

109326944854192938

Í nótt dreymdi mig að ég hefði farið til Grænlands. Það var mjög gaman. Mæli með því að þið kíkið þangað.

Í gær fór ég ásamt Einari á Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð í Borgarleikhúsinu. Sýningin fór fram úr mínum björtustu vonum, enda svo sem ekki von á öðru en góðri sýningu ef miðað er við hverjir stóðu að henni.

Áðan skrapp ég á Hamborgarabúlluna með föður mínum og seinna í dag hittist leshópurinn og geipar af andakt um andans málefni.

Netmogginn telur það fréttnæmt að þúsundir barna hefji skólagöngu í dag. Það finnst mér aftur á móti ekki.

Að lokum verð ég að viðurkenna að þetta finnst mér fyndið. Þegar málum er svo farið að fólk gerir grín að andláti þínu í síauknum mæli, hlýtur þér að fara að finnast hringurinn þrengjast um þig. Ég yrði ekki hissa þótt svíakonungur væri orðinn paranoid.