109301306278763497

Ég fór út í bakarí áðan og rak þar augun í skemmtilega vörumerkingu. Þar var kaka, ekki ósvipuð sveskjuköku, merkt sem „hjónabandsæla“. Kærði ég mig kollóttan um slíka köku og fékk mér vínarbrauð. Mig langaði til að benda afgreiðslustúlkunni á hversu kræsilegri kakan yrði ef öðru s-i yrði bætt inn á merkimiðann en afréð að láta það eiga sig. Það er miklu skemmtilegra svona.

Siv Friðleifs mun víkja þann 15. september. Kominn tími til, segi ég, þó efast megi um réttmæti ákvörðunarinnar. Halldór lætur ekkert uppi um ástæðu þessa annað en það að þetta sé „pólitísk ráðstöfun“. Mun það þýða að Siv eigi ekki jafn valdamikla vini og arftaki hennar eða að hún sé vitlaus eða að hún sé hreinlega óvinsæl?

109293380293416311

Ég þoli ekki sumartímann. Hvert vor fyllist ég væntingum til sumarsins – haldandi að ég muni geta gert margt sem ég ekki gat sökum skólans – fullur tilhlökkunar til allra partýanna, ferðalaganna og kaffihúsaferðanna í góða veðrinu. Allt er þetta kjaftæði og yfirleitt gengur ekkert af þessu eftir. Mér til mikillar gleði, lauk sumrinu í dag er ég sagði upp vinnunni á Borgarspítalanum. Þangað sný ég aldrei aftur.

Á eftir fer ég til hárskerðis. Mun ég þar láta fax mitt.

Á morgun held ég til föðurhúsa, en þar hef ég eigi verið um nokkurt skeið.

Um helgina vinn ég í Ikea. Þar er alltént skárra að vera en á þessum ansvítans spítala.

Eftir helgi byrjar skólinn og þar með líf mitt á ný.

109287390177923029

Lesendur hafa augljóslega ekki hætt lífi og limum til að gera athugasemdir í dag, enda þótt síðasta færsla væri meira upp á grínið en hitt, og enda þótt flestu gríni fylgi nokkur alvara.

Sigur íslendinga á ítölum er vissulega afrek sem á engan sinn líka í íslenskri fótboltasögu (komi það í ljós að álíka merkilegt afrek hafi þegar verið unnið mun ég með öllu afneita því), nema kannski helst þegar Ísland átti frægt jafntefli á móti heimsmeisturum frakka.

109284788077407485

Stundum verð ég svo fjúríus að mig langar að rífa vissa aðila á hol, tæta upp úr þeim innyflin, gúffa þeim í mig og öskra illyrmislega yfir skrokkum þeirra með hálftuggið hold millum tannanna. Þannig leið mér einmitt fyrir skömmu. Ég vona viðkomandi vegna að enginn reyni að messa við mig í dag, ella á ég eftir að springa og verða einhverjum að aldurtila.

109267053581253347

Ég er kominn með þvílíkan vinnuleiða, en skólinn hefst eftir átta daga og þá get ég tekið gleði mína að nýju.

Eftir umfangsmikla leit heima við, að hinni helgu bók Kristins Ármannssonar, neyddist ég til að kaupa mér nýtt eintak. Sem er synd, því aldrei er gott að eiga tvö eintök af sömu bókinni, en eru nú flestar skólabækurnar keyptar. Ef einhver á bók sem mig vanhagar um, og er reiðubúinn til að selja mér hana eða lána, vinsamlegast hafið samband. Mig vantar:

Ragnheiður Kristjánsdóttir og Svavar Hrafn Svavarsson: Fornöldin í nútímanum, um arfleifð Forn-grikkja og rómverja. Nýja bókafélagið, Reykjavík, 2000.

Helgi Gunnlaugsson: Afbrot íslendinga. Háskólaútgáfan 2001.

Björn Bergsson: Félagsfræðikenningar og rannsóknaraðferðir. Iðnú, Reykjavík, 2002.

Stefán Karlsson: Stjórnmálafræði, stjórnmálastefnur, stjórnkerfið, alþjóðastjórnmál. Iðnú, 2003.

Þá fyrstu finn ég hvergi og seinni þrjár eru fáránlega dýrar. Öll tilboð velkomin hér.

109266681086865752

Alltaf þegar ég sé skota fyllist ég löngun til að tala við þá á þessum nótum:

Ég: „Who are ye, wee man?“
Skoti: „Angus McHaggis of the McLauchlan clan, ye puny nancyboy!“
Ég: „McHaggis, eh? I knew your father, Robert ‘Mutton’ McHaggis, and a right bastard ‘e was.“
Skoti: „Aye.“

Ég myndi sóma mér ágætlega á Skotlandi, tossin’ em cabers and tha like. Það er íþrótt sem vantar á Íslandi: Cabertoss, eður drumbakast.

109249793422876115

Alveg er ég gapandi bit yfir fjölda réttra svara við getrauninni – þau eru engin. Og mér sem fannst þetta í auðveldari kantinum. Þeir sem gerðu tilraun til svara flöskuðu á því að ég spurði aldrei um fótboltalið eða landslið eða neitt í líkingunni. Ég spurði hvaða þjóð er best í fótbolta og eina rétta svarið við því er engin. Það er ógjörningur að komast að því vegna fjölda fólks í hverju landi fyrir sig, jafnvel á Íslandi, því fólk myndi deyja og annað fæðast í staðinn meðan á athuguninni stæði.

Landslið hverrar þjóðar fyrir sig er enginn mælikvarði á fótboltagetu þjóðarinnar allrar. Hefði ég spurt um landslið aftur á móti, hefði bróðir minn einn svarenda haft vinninginn.

Munu sjálfsagt einhverjir reyna að nota það gegn mér að yfirleitt er talað um hvaða þjóðir eru bestar í fótbolta. Það sýnir bara hvurslags vitleysur geta leynst í málinu, að talað sé um þjóðir þegar ellefu manna lið á í hlut.

109245826906910977

Ég er hundfúll. Ekki út í neinn sérstakan þó. Ég hef verið í vondu skapi síðan ég kom heim úr för minni til Rómaveldis ins forna, enda ekkert við að vera hérna heima. Hver dagur er öðrum verri – kannski vegna þess að þeir eru allir eins – og án tilbreytingar er lífið leiðinlegt. Mikið verð ég feginn þegar skólinn byrjar aftur. Ég er ansi hræddur um að ég verði að segja svolítið fáránlegt, en án skóla væri lífið grautfúlt.