109199180924032196

Fátt þykir mér skemmtilegra en alþýðuskýringar. Alþýðuskýringar eru, þegar menn vantar svör, hafa engin og búa þau til. Sem dæmi má nefna iðnaðarmennina í Grafarholtinu, sem furðuðu sig á hve seint verk þeirra gekk. Að lokum urðu menn sáttir á að þar væri álfabyggð (!) og að téðir álfar væru ekki par ánægðir með stóriðjuna. Var tíðindum þessum svo lekið beint í fjölmiðla, án þess einu sinni að hugsað hafi verið út í þá „mass-hysteríu“ sem brotist gæti út. Hugsanleg ástæða þess að engin hjaðningaél brutust út; að fólk rauk ekki upp til handa og fóta, rændi búðir og át líffæri hvers annars, gæti verið sú að samningar náðust við álfana um að færa byggð sína svo byggja mætti þar mannabústaði.

Skyldar alþýðuskýringum eru barnaskýringar. Dæmi um barnaskýringar er þegar nokkur börn voru spurð hvaðan vindurinn kæmi. Eitt barnið hugsaði sig aðeins um og sagði svo: „Frá trjánum“ Þegar það var svo spurt hvers vegna það héldi það, sagði barnið spekingslega: „Því þegar þau hreyfa sig, þá er vindur.“ Hér er komið röklegt samhengi og þó ekki sé þetta beinlínis rétt, er svarið ekki langt undan.

Munurinn á barnaskýringum og alþýðuskýringum felst einkum í tvennu: Alþýðuskýringar eru aðeins á vegum fullorðinna og yfirleitt er líka minna vit í þeim.

Dropinn holar steininn þykir mér ágætt máltæki, ekki bara vegna þess að ég vinn í Ikea, þar sem mannsandinn bugast smám saman af allri þeirri geðillsku sem fellur á starfsmenn eins og beljandi stórfljót. Það er aðeins fagurfræðilegt mat mitt á þeim ágæta vinnustað en, hvað máltækið varðar, á það við um fleiri hluti en Ikea.

109192038713583174

Mér finnst þessi frétt fyndin, sérstaklega í ljósi þess að blaðamaðurinn sem hana skrifar gerir augljóslega upp á milli frambjóðenda.

Þessi frétt er líka fyndin. Mér virðast menn komnir með buxurnar niður á hæla þegar þeir telja mönnum það til miska að andmæla stríði. Vissulega liggja fleiri ástæður þarna á bakvið, en þessi sneið vakti hjá mér kátínu.

109191907786273532

Ég hef ákveðið að svara Silju með mínum eigin lista yfir 13 hluti sem ég ætla að hafa lokið af áður en ég verð 25 ára, ekki að mér liggi neitt á, eða að ég skilji hvers vegna þeir þurfa að vera 13 – hlutirnir, það er. Er þetta ekki birt í neinni sérstakri röð:
  1. Kenna Silju á rafmagnsgítar
  2. Kenna Silju að drekka köffi
  3. Flytja til Ítalíu í heilt ár
  4. Klára að læra ítölskuna
  5. Sömuleiðis latínuna
  6. Sömuleiðis þýskuna
  7. Klára fyrstu háskólagráðuna
  8. Fara á Interrail með Silju (nema hún banni mér að koma með, enda allt gott í hófi)
  9. Gefa út bók (strax kominn með hugmynd að tveimur!)
  10. Lesa eitthvað eftir Kiljan, en það hef ég aldrei gert, ef frá eru dregnar smásögurnar
  11. Sjá nýja flokka í ríkisstjórn
  12. Kaupa mér íbúð
  13. Hætta að vinna á Borgarspítalanum (I wish!)
Þá er það komið. Áreiðanlega er margt merkilegra sem ég gæti ásett mér að gera, en þetta er nú eingöngu blogglisti, og ekki mikið að marka þá.

Café grappa

Á Ítalíu er mjög gott kaffi. Svo gott að kaffið á Íslandi má viðbjóður heita í samanburði. Uppáhaldið mitt úti var svonefnt café grappa, eða espressó í jöfnum hlutföllum við hinn bitra grappasnafs, flösku af hverju ég hafði með mér þaðan.

Nú, ég gerði mér lítið fyrir áðan og keypti mér espressokönnu og Lavazza. Eftir grandskoðun á könnunni taldi ég mig hafa burði til kaffigerðar og lagðist strax í hana. Að henni lokinni var svo lokaprófraunin: Að smakka kaffið! Gerði ég það og lifði af. Naut þess meira að segja. Nú sit ég með mitt eigið café grappa, sem heppnaðist mjög vel, þó það ítalska hafi selvfølgelig verið betra, og blogga um fyrsta skref mitt inn í stærri heim; heim espressódrykkjumanna.

109182274245761244

Einn vinnufélaga minna, hvern ég nafngreini ekki, kom mér á óvart í byrjun sumars. Samræður okkar hófust svo, sem fyrir neðan er ritað:

Kauði: „Veistu hvern ég þoli ekki?“
Ég: „Nei, hvers vegna ætti ég að vita það?“
Kauði: „Ég veit það ekki, en veistu hvern ég þoli EKKI?“
Ég: „Nei.“
Kauði: „Atla Frey Steinþórsson.“
Ég: „Hvers vegna þolirðu hann ekki?“
Kauði: „Bara, hann er eitthvað svo …“
Ég: „Þekkirðu hann eitthvað?“
Kauði: „Nei.“
Ég: „Ég skil …“

Ekki veit ég hvaða horn hann ber í síðu Atla, eða hvers vegna það á að heita mér viðkomandi. Að ógleymdum fáránleika þess að ganga upp að nánast bláókunnugum manni og segjast ekki þola annan mann, sem maður svo þekkir jafnvel verr.

109181282886379993

Í gær sá ég mjög fyndna ruslatunnu. Á henni stóð: Eingöngu fyrir atvinnusorp. Þessi tunna er fyrir Völu Matt, hugsaði ég. En að öllu gamni slepptu er ég hálf móðgaður yfir þessu öllu saman, þessari mismunun á sorpi, á ég við. Að aðeins menntuðu sorpi sé veittur aðgangur að tunnu þessari er náttúrlega fyrir neðan allar hellur!
Uppfært
Nú skil ég þetta! Auðvitað er hér átt við sorp sem er sorp að atvinnu – ekki í hlutastarfi. Hér er þá um stéttarfélag Sorpu að ræða.

109174741957287287

Einhverra hluta vegna hef ég aldrei viljað vera sá sem þrýstir á hnappinn í strætó. Aðallega kannski vegna þess að ég vil ekki vekja athygli á sjálfum mér (hvers vegna blogga ég þá? Góð spurning!), en yfirleitt hlýtur hnappsáþrýstandi óskerta athygli samferðamanna sinna nær samstundis og á hnappinn er þrýst.
Jæja, nóg um það. Keypti ég mér bók í dag, eins og minn er siður, og var það Die Edda des Snorri Sturluson sem varð fyrir valinu að þessu sinni – á þýsku, eins og titillinn svo augljóslega gefur til kynna. Mun skræða þessi vafalítið stytta mér stundirnar í þýskutímum næsta vetrar.
Merkilegt þykir mér raunar, að eiga Edduna góðu á máli kanslarans, en eigi á íslensku, en málinu mun þannig farið að fyrir rúmum tveimur árum átti ég lélega skólabókarútgáfu af Eddunni, sem eitthvert dusilmenni svo sullaði kóladrykk sínum yfir, og hefur mér ekki orðið úr verki að fjárfesta í nýrri – enda bíð ég spenntur eftir að koma höndum yfir allt ritsafn Snorra.