109465958538958976

Eftir mikla, en blogglausa, andvökunótt mætti ég of seint í skólann (hvernig í andsk. fór ég að því? Ég hafði alla nóttina til að koma mér þangað!) og missti af félagsfræðitíma. Ég sem gat svarið fyrir það að kvendið væri handankomið, kaput, steindautt og óanímaterandi. Ég vona að hún verði mér ekki svekkt fyrir að hafa sent Hagstofunni allar nauðsynlegar upplýsingar um andlát hennar, jafnvel þó þar hafi ég verið fullsnemma á ferðinni. Dánartilkynningarnar í Útvarpinu og Mogganum fyrirgefur hún mér líkast til aldrei.

Kunningskona mín sætir kúgunum yfirboðara sinna. Sjálfur hefði ég sagt þeim að fara til andskotans. Ekki hef ég þó fyrir barni að sjá og þar mun hundurinn grafinn. Hvernig hægt er að lifa í þjóðfélagi þar sem heiðarlegt verkafólk er beitt valdníðslu vil ég sem minnst tjá mig um. Það birtist allt í næstu bók minni „Hvernig hægt er að lifa í þjóðfélagi þar sem heiðarlegt verkafólk er beitt valdníðslu – hlutlægar athuganir á samfélaginu, þjónum þess og valdhöfum“.
Jæja, þá fer ég að sofa. Ef einhver hefur eitthvað á móti því skal hann eiga mig á fæti. Þeim sem almennt finnst lítið koma til svefns sem dægradvalar skulu líka eiga mig á fæti. Og fyrir þá sem það vilja vita er miklu merkilegra fólk sem velur að sofa yfir að horfa á The O.C., eða hvað svo sem fólk horfir á í þessum imbakössum sínum. Það er líka skemmtilegra. Að sofa, það er.

Aukinheldur svaf ég ekkert í nótt, sem fyrr segir.