109776733998291597

Alveg hverfa haustlitirnir í grámósku Reykjavíkur. Annað en á Akureyri, þar sem allt er svo fallega baðað í búningi haustsins um þessar mundir.

Mér þótti gaman að fá afgreiðslu í ríkinu í dag. Ég er ekki enn tvítugur, en afmælisdagurinn er á næstunni, þó ég láti nú vera að blogga um það.

Ég valtaði upp prófi úr Njálu í dag. Var það gaman, en mig skorti hins vegar tíma til að gera svörum mínum nægileg skil. Hafði kennarinn orð á því að ég greinilega vissi allt of mikið og þvingaði mig til að skila prófinu. Þá var næsti tími þegar hafinn.

Ég gleymdi alveg að birta lag gærdagsins, en það var lagið Find the River með R.E.M. Það má enn hlusta á það, þó það hafi verið lag dagsins í gær, enda úreldist tónlist þeirra Stipe seint.

Lag dagsins í dag er ekki November Rain með Guns n’ Roses, jafnvel þó að rignt hafi eins og Ödipus allan mánuðinn og nokkru áður september var úti. Nei, lag dagsins er Russian Dance með Tom Waits. November Rain geymi ég þar til á afmælisdaginn – daginn sem ávallt rignir.