109924417911104011

Mikið hefur verið dekrað við mig að undanförnu. Í gær fékk ég máltíð konunga: Rauðvínsleginn hamborgarahrygg með brúnuðum kartöflum, gulum baunum og brúnni sósu, og rauðvín var drukkið með. Á eftir er mér boðið í snittur, bjór og snafs, og ekki er það nú verra.

Svo er bókaskápurinn á leiðinni að fitna með laglegri og ómissandi viðbót við þegar ágætt safn mitt, auk þess að til stendur að versla nýtt rúm, baki mínu til mikils léttis. Það kemur þó ekki fyrr en ég hef tekið til hendinni.

Í gærkvöldi hitti ég gamlan kennara minn. Hann var mjög ölvaður og formælti skólastjórninni og ég veit ekki hvað. Svo sagðist hann hafa verið strangur kennari, en það hafi bara verið til að herða okkur svo við gætum orðið „best í heimi“. Ekki skal furða að nokkuð hefur dregið yfir þá glansmynd sem ég hafði af honum sem kennara. Tja, það var nú kannski aldrei glansmynd. Og í raun var hann aldrei góður kennari. En skemmtilegur var hann þó.