Hobbitinn

Ég kláraði Manngerðirnar í gær og skemmti mér hið besta. Svo las ég ársgamla ritgerð eftir sjálfan mig, Samanburður á norrænni goðafræði og Hringadróttinssögu. Mér finnst hún ekki góð lengur. Orðin samantíningur og kraðak lýsa henni ágætlega. Það er því meiri þörf á Hobbitaritgerð en ég í fyrstu hugði, þ.e. fyrir sjálfan mig. Ég get ekki sætt mig við að svona pappír liggi eftir mig án lagfæringa.

Í gærkvöldi horfði ég á Fisher King eftir meistara Terry Gilliam. Sem barn fannst mér hún með öllu óskiljanleg, en þegar ég sé hana núna finnst mér hún mjög góð, og handbragð Gilliam leynir sér ekki. Og ekki spillir fyrir að Tom Waits kemur fyrir í myndinni sem fótalaus fyrrum hermaður.

Í kvöld fer ég á hátíðartónleika Óperukórs Hafnarfjarðar í Hafnarborg og horfi á föður minn gaula úr sér lungun. Það verður áreiðanlega gaman. Svo hefst ég handa við að rýna í Hobbitann eftir bitastæðum smáatriðum, t.d. því að Gandalfur kljáist við sjálfan Sauron í henni, en þá kallaði hann sig Seiðskrattann (e. The Necromancer) og var fremur veikburða miðað við venjulega. Annars hefði Gandalfur ekki getað rassgat. Þetta kemur raunar ekki í ljós fyrr en í Hringadróttni.

Annars finnst mér orðið bitastætt engan veginn lýsa því sem það á að gera. Ég sé alltaf fyrir mér ælu með bitum í. Mér finnst það þess vegna ekkert sérlega aðlaðandi og forðast að nota það.

110321743848959216

Ég gerði mér ferð niður í bæ að skoða jakkaföt sem á að gefa mér. Það ótrúlega gerðist í mátunarklefanum að buxurnur voru of þröngar – í fyrsta skipti á ævinni sem það kemur fyrir mig, manninn sem fitnar aldrei. Ég skrapp líka í Ecco að skoða skó. Þeir eru víst hættir að framleiða uppáhaldsskóna mína, en það þýðir víst lítið að vera íhaldssamur á allan fatnað.

Í gær voru þrettán ár síðan afi minn, Arngrímur Jón Vídalín Bjarnason, dó. Skrýtið að ég mundi ekki eftir því í gær, en ég man eftir því núna. Ég mun alltaf muna eftir því hvernig dagurinn var. Tvímælalaust undarlegasti dagur ævi minnar.

Hákarlar og Svarthöfði

Ég veit að þetta er ekki huggulegt en ég gat einhvern veginn ekki varist brosi þegar ég las þetta. Ég get verið alveg viðbjóðslega vondur stundum.

Talandi um illsku þá sá ég trailerinn fyrir Episode III í gærkvöldi. Ég held að fátt hafi valdið mér þvílíkri gæsahúð áður. Nema auðvitað trailerinn fyrir Hringadróttin. Það eina sem pirrar mig við nýju Star Wars seríuna er stelpustrákurinn hann Hayden Christiansen, hver stendur engan veginn undir hlutverki hins verðandi Svarthöfða. Vonum að hann komist sem fyrst í búninginn, eins og bróðir minn sagði.

Við Star Wars nöttarar hljótum að velta því fyrir okkur hvort James Earl Jones tali aftur fyrir þann svarta. Hann er enn á lífi, trúi ég, og því væri það glæpsamlegt ef einhver annar yrði fenginn.