Hinn siðlausi sölumaður

Í dag byrjaði ég í starfsþjálfun. Ég get ekki annað sagt en að mér líki starfið vel, mun betur en mér líkaði kassinn. Vér sem fegrum starfsheiti vor í CV-um vorum unum betur við að vera „sölumenn“ en „gjaldkerar“. Núna get ég líka selt sálu mína mónópólýinu og gerst algjörlega siðlaus, eins og sölumönnum ber að vera. Kann ég Fanneyju Evu, mínum verðandi fyrrverandi yfirmanni, mínar bestu þakkir fyrir meðmælin.

Nú þarf ég að læra að standa allan daginn upp á nýtt, nokkuð sem ég hef ekki iðkað síðan á Vínbúðardögunum, en því get ég lofað hverjum og einum að langtum betra er að standa allan daginn en að sitja. Það fer með bakið. Kúnnarnir fara svo með restina af heilsunni.

Svo er bara að draga fram gamla hjólið og rúlla því í viðgerð. Svo ætti hatturinn að leggja af stað frá Bandaríkjunum á allra næstu dögum. Þá verð ég góður fyrir sumarið.