Lífsgátan

Þorgrímur Þráinsson bullar í Blaðinu (sem er nota bene ömurlegt blað) í dag. Þar segir hann að grísku goðin hafi falið leyndardóm lífsins í hjartanu, eftir að hafa skeggrætt um að fela hann uppi á hæsta fjallinu eða í dýpsta djúpálnum. Þetta hef ég aldrei heyrt áður. Þó er ég þónokkuð kunnugur hvers konar goðafræði, eftir að hafa stúderað þau jafnt í framhaldsskóla öll mín ár þar (fimm) sem og utan hans. Gæti verið að hann eigi við einhverja grein búddisma, þar sem allur pistill hans virðist taka mið af honum? Ekki er sagan grísk, svo mikið er víst.

Dr. Gunni er fyndinn

Fyrir tilviljun rakst ég á gamla bloggfærslu hjá dr. Gunna. Þessi mynd fylgir færslunni:

„Húrra!
Stefán Einar, 19 ára, er framtíðarhetja „frjálslyndra“ Sjálfsstæðismanna. Hann er með ilmandi hressa heimasíðu og aðdáendamynd af Bjössa Bjarna og allt. Á mínu kommúníska æskuheimili voru svona gaurar kallaðir „smjörkúkar“ og mikið gaman hent að slíkum. Í þá daga fylgdu hornspangargleraugu lúkkinu. Það er frábært að þessi dýrategund er ekki útdauð, því ég hélt að eina eftirlifandi skepnan af tegundunni væri Birgir Ármannsson (held ég að hann heitir), annar slaufu-smjörkúkur sem er í einhverjum banka eða eitthvað. Lögfræðingur kannski. Kannski geta hann og Stefán fjölgað sér svo Smjörkúkarnir deyi ekki út?“
-2002.

Þetta er hvorttveggja fyndið og satt. Hvers vegna skyldi Mörður ekki hafa fært hugtakið „smjörkúkur“ inn í eddu sína? Kannski ég hringi og spyrji hann.

Ljóð dagsins

Uppörvun
Lát óskelfdur heimsku hof
háðs í eldi brenna –
miskunn veldu og manndáð lof,
meðan veldur penna.
Lát óm þinna hljómfalla opna þér dyr
í íslenzku kotin,
og hritt því, að málið, sem hugdirfði fyrr,
sé herlúður brotinn.
Ég skil það, að hann geri heiminum gagn,
sem huggar, en letur –
en skáldsins í valdi er voldugra magn,
sem vekur og etur.
Ætli einhverjir lesenda þessarar örmu bloggsíðu kenni skáldið?