111566782998464815

Í dag vann ég minn síðasta vinnudag á kassa, a.m.k. í bili. Ég ætla að sjá hvort ég fái að taka að mér afleysingar á kassa meðfram húsgögnunum.

Í dag strípuðu tveir sextán ára strákar alveg og lögðust upp í rúm. Þeim var tvisvar hent út, í seinna skiptið þegar þeir reyndu að komast aftur inn að kaupa ís.

Það verður ekki annað sagt en að ég beri svip föður míns. Hér er mynd af honum frá því í 6.B í MA.

Getraun dagsins

Maður 1: I’ve killed you once, and I’ll kill you again.

Maður 2: You can’t kill me. I’ve been rejected by death.

Sá sem getur sagt mér úr hvað kvikmynd þetta er (án þess að nota leitarvél) hlýtur æðstu verðlaun Bloggsins um veginn: Heiðurstitilinn Mahakeshyapa af Blogginu um veginn, sem er markgreifanafnbótarígildi.

Eflaust verða margir um hituna, en fáir munu vita svarið. Raunar verð ég steini lostinn ef einhver lumar á svarinu. Jafnvel svo að ég neiti að trúa viðkomandi. Nei nei. Ég trúi ykkur, lömbin mín.

Orðatiltæki o.fl.

Skyldu lesendur mínir hafa jafn gaman að mjólkurfernuáletrunum og ég? Þessar um skrattann finnast mér skemmtilegastar:

Að koma eins og skrattinn úr sauðaleggnum,
að mála skrattann á vegginn,
eins og skrattinn sé á hælunum á e-um,
hver hefur sinn djöful að draga.

Aðrar skemmtilegar eru:

Eins dauði er annars brauð,
oft kemur illur þá um er rætt,
sérhvert sæði ber ávöxt sinn líkan,
að hlaupa af sér hornin,
að hafa allt á hornum sér,
og að koma e-um í bobba.

Hattaverslunin amríska segir mér að hatturinn sé á leiðinni, það sé bara ekki hægt að gera grein fyrir millilandasendingum. Ég vissi það svosem alveg, enda hafði ég ekki áhyggjur af því. Ég hafði áhyggjur því eftirlitsvélin þeirra ágæta sagði mér að hatturinn væri ekki lagður af stað, jafnvel þó svo hann ætti að vera það.

Þessi leitarvél er fyndin.

Sænskt sumar

Jæa, þá er öðrum (hálfum) degi mínum í starfsþjálfun lokið. Svo er það sleitulaus vinna fram á miðvikudag, en þá á ég frí, ef að líkum lætur. Ekki að það sé neitt issue, svo ég mæli á aðra tungu.

Heim með mér hafði ég milljón bæklinga um hina ýmsu og margvíslegu sófa sem viðskiptavinum Ikea stendur til (kosta)boða. Það verður lesefni mitt næstu daga, meðan ég klára síðustu kassadagana mína. Í næstu viku tek ég bæklinga um bókaskápa og borðstofuborð. Alveg er ég viss um að lesendur mínir eru eins áhugasamir um Ikeahúsgögn og ég, svo aldrei er að vita nema þeim verði komið þægilega á óvart á allra næstu dögum, með færslum um hin ýmsu litbrigði Billy-bókaskápa og Ektorp-sófa.

Í sumar stefni ég að því að eyða virku dögunum í að hjóla um hvippinn og hvappinn, setjast á lær mér, taka ofan hatt minn og yrkja fögur kvæði sem ég anda að mér ferskum sumarandvaranum. Að sjálfsögðu fullur. Og nakinn.

Hattabúðin er raunar enn ekki búin að senda hattinn minn af stað. Urg! Aldrei að díla við kjarnorkuveldi. Ef viðskiptavinir þeirra eru með eitthvað múður, þá núka þeir þá bara í klessu. Svo ég neyðist víst til að bíða, milli vonar og ótta um að hatturinn komi einhvern tíma þegar ég er orðinn háaldraður.

Undarlegar fréttir

Maður dó við handþvott í gosbrunni,
smekkleysi kom upp um þjóf,
maður stöðvaður á flugvelli með skjaldböku límda við bakið,
maður kramdist milli tveggja fíla
og 6,75 kg. hamborgarar.

Hvurs konar skrýmsli þarf til að geta torgað 6,75 kg. hamborgara! Í raun er þó ekkert að furða. Mottó bandaríkjamanna enda verandi: If you can eat it, what are you waiting for? If you can’t eat it, eat it anyway.

Í öðrum (og ómerkari) fréttum virðist Verkamannaflokkurinn hafa unnið kosningarnar. Ekki kemur það á óvart.

Hinn siðlausi sölumaður

Í dag byrjaði ég í starfsþjálfun. Ég get ekki annað sagt en að mér líki starfið vel, mun betur en mér líkaði kassinn. Vér sem fegrum starfsheiti vor í CV-um vorum unum betur við að vera „sölumenn“ en „gjaldkerar“. Núna get ég líka selt sálu mína mónópólýinu og gerst algjörlega siðlaus, eins og sölumönnum ber að vera. Kann ég Fanneyju Evu, mínum verðandi fyrrverandi yfirmanni, mínar bestu þakkir fyrir meðmælin.

Nú þarf ég að læra að standa allan daginn upp á nýtt, nokkuð sem ég hef ekki iðkað síðan á Vínbúðardögunum, en því get ég lofað hverjum og einum að langtum betra er að standa allan daginn en að sitja. Það fer með bakið. Kúnnarnir fara svo með restina af heilsunni.

Svo er bara að draga fram gamla hjólið og rúlla því í viðgerð. Svo ætti hatturinn að leggja af stað frá Bandaríkjunum á allra næstu dögum. Þá verð ég góður fyrir sumarið.

Snorra-Eddu glósur

Alltaf á vorin og síðla á veturna fyllist bloggið mitt af fólki í leit að Snorra-Eddu glósum. Það er kannski komin tími á að ég tengi á slíkar glósur, svo ég valdi fólki ekki vonbrigðum. Hérna er síða með ýmis konar Snorra-Eddu tenglum, en sjálfur mæli ég með þessum. Þetta eru glósur úr Snorra-Eddu, Egils sögu og Hávamálum. Ef þetta nægir ekki má benda á kennsluvef Sverris Páls Erlendssonar.