Meira um Leifsstöð

Það er kannski rétt að bæta því við að athugasemdin um bjórdrykkju í Leifsstöð er byggð á eigin reynslu, ekki af saurlifnaði og drykkjufísn móður minnar, sem er áreiðanlega einmitt núna að sporðrenna sína þriðja glasi af sódavatni, sakleysinginn.

Í ágúst fæ ég sjálfur að líta Leifsstöðina innanfrá. Eins gott að engin seinkun verði þá. Ekki nenni ég að hella mig fullan á flugstöðvarbarnum og verða of seinn í sukkið og svínaríið á Spáni. Það er ekki sama, Jón og séra Jón.

Næstu páska lít ég svo flugstöðina enn einu sinni, en þá verður förinni heitið til Rússlands. Gaman væri, ef ég fengi að sjá hræið.

Hraðakstur og fokkíng Leifsstöð

Jæa, vaknaði klukkan átta og keyrði mömmu og litlu skepnuna út á Keflavíkurflugvöll. Ég keyrði á 90 alla leiðina, meðan einhverjir dólgar keyrðu framúr mér á 150, steytandi hnefanum, hastandi á mig einhverjum spænskum ónotaorðum. Hvað þýðir svosem el hijo de puta?

En nei, ef einhver hafði áhuga, þá á ég afar erfitt með að keyra hraðar en 90 á þjóðvegum úti. Innanbæjar hef ég farið svo hratt sem 130, en þá var ég líka of seinn í vinnuna, og þurfti að keyra frá Laugarnesi suður í Kópavog. Það er miklu auðveldara að stunda hraðakstur innanbæjar. Ætli það sé ekki bara svona meldað í mig hve fólk á það mun fremur til að drepa sig úti á landi en innanbæjar.

Hvaða bull er það annars að Reykjanesbrautin sé orðin tvöföld? Jú, kannski á þriggja kílómetra kafla.

Svo hringdi mamma í mig rétt í þessu. Þau munu víst þurfa að húka inni í Leifsstöð til eitt vegna seinkunar. Það er auðvelt að fá óbeit á Leifsstöð undir þeim kringumstæðum, sérstaklega þegar allur gjaldeyririnn fer að hverfa á flugstöðvarbarnum. En hvað annað er hægt að gera í svona Limbo, en að drekka bjór?

Líf mitt sem „krossari“

Um ævina hef ég nokkuð sveiflast milli beggja bóga hvað trúmálin varðar, þó sérstaklega milli tíu til sextán ára aldurs. Síðastliðið haust skráði ég mig svo loksins úr þjóðkirkjunni. Fjórum sinnum fór ég í Vatnaskóg með KFUM, á aldrinum ellefu, tólf og tvisvar þrettán, síðasta skiptið í fermingarfræðslu. Telja má fyrstu þrjú skiptin til tímabila þónokkurrar trúar. Í raun var ég opin bók hverjum trúmanni til ritunar, hefði nokkur talið það eftir sér að halda trú minni við. En vegna þess að það gerði enginn, tók trúin að dala í hvert sinn er ég yfirgaf sælureitinn í Hvalfirði.

Sautján ára fór ég fimmta sinni í Vatnaskóg, til að kveðja staðinn. Þá þýddi ekkert að ræða við mig um trúmál lengur.

Ein er til góð saga af ferðum mínum til skóglendisins við Eyrarvatn, en þá var ég þar í mitt fyrsta skipti. Eftir hverja kvöldvöku bauðst hverjum sem vildi að koma til bænastundar í kapellunni, en það nýtti ég mér alltaf, svo ég gæti vakað lengur, og vegna þess að kapella þessi er einn sá albesti íhugunarstaður sem ég veit. Eitt kvöldið eftir bænastund, þegar nokkrir dagar af dvöl minni eru liðnir, kemur að mér flokksforingi nokkur, Baldur að nafni, og spyr mig hvort ég sé krossari eins og Óskar (nafnið á drengnum man ég nú ekki, en drengurinn sá gekk ávallt um með stærðarinnar biblíu undir vinstri handlegg, spakur á svip), þar sem við séum þeir einu sem koma til kapellustundar á hverju kvöldi. Í sakleysi mínu játa ég því, jújú að það hljóti að vera, að ég sé krossari. Það hlaut að vera titill hins staðfasta trúmanns, fannst mér.

Flaug fiskisagan. Brátt fóru foringjar að heilsa mér með nafni og kinka vingjarnlega til mín kollinum, af engri sjáanlegri ástæðu. Ég hlaut að vera svona skemmtilegur. Dag einn á fótboltavellinum, eina staðnum í Vatnaskógi sem ég fann mig aldrei á, fer Baldur foringi enn einu sinni að ræða við mig um krossismann. Ég hætti raunar að botna upp né niður í eigin kringumstæðum, hvern andskotann ég væri búinn að flækja mig í, þegar hann spyr mig hvort við hittumst ennþá á götu X, eða hvort komin sé einhver gata Y inn í dæmið. Hér hafði augljóslega orðið einhver misskilningur, sem ég þorði ekki að leiðrétta, svo ég sagði honum að það væri engin gata Y. Gata X væri ennþá vor reglulegi fundarstaður og í fullu gildi.

Það hélt ég að yrðu málalyktir, að ég væri dálaglega búinn að snúa mig úr snöru krossismans. Það hefði kannski verið svo, ef ekki hefði verið fyrir Hannes foringja, sem hafði verið nemandi föður míns í Árbæjarskólanum á níunda áratugnum, og hafði sérstaklega mikinn áhuga á trúarlífi okkar feðga. Mér varð öllum lokið þegar hann spurði mig hvort faðir minn væri jafnvel prestur í einhverri sókninni! Foringjarnir umlykja mig lymskulega til að hlýða á svar mitt. Mitt svar: Ég held að þið séuð eitthvað að misskilja. Þvílíkan andleysisaumingjasvip hef ég aldrei síðan séð framan á nokkrum manni. Eftir þetta var mér aldrei heilsað, nema aðstæður kröfðust þess.

Löngu síðar lærði ég hvað Krossinn var, og er. Hitt hef ég þó aldrei skilið, hvers vegna þeim kunni betur við mig sem „krossara“ en kirkjumann. Kannski þótti þeim fyndið að til eru börn sem nema af vörum brjálæðinga. En það fæ ég líklegast aldrei að vita.

Déskotans

Hressi brjálæðislegra-augnatillitagaurinn í IKEA vakti Merkilegasta og mikilvægasta bloggara Íslands með símhringingu klukkan ellefu og bað hann um að mæta í vinnuna. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að MMBÍ ætlar ekki að mæta í vinnuna í dag. Honum tókst ekki að sofna aftur. Þá er plan dagsins farið í hundana.

Rómverjar og Ítalir

Lýsing Haraldar á Ítölum er talsvert ólík minni eigin reynslu af sömu þjóð. Það hlýtur að vera óheppilegt að alhæfa útfrá íbúum leiðinlegustu borgar m.t.t. túrisma í allri suður-Evrópu, því sjálfur þekki ég Ítala eingöngu af kurteisi, skyldurækni og góðmennsku. Meira að segja leigubílstjórarnir eru frábærir. Og sá ítalski matur sem ég þekki er æðislegur.

Um umferðina er hins vegar ekki annað hægt en að vera sammála. En aðrar þjóðir sama heimshluta eru síður en svo undanskildir sama hátterni, þá sérstaklega ekki helvítis Frakkarnir.

En eftir liggur að Róm er Róm og ekki Ítalía. Róm er Ítalía in extremus; þar safnast skíturinn saman, sbr. allir vegir liggja til Rómaborgar-frasinn. Samanburðurinn er álíka góður og milli Mexíkóborgar og landsins alls, eða milli Andorra og Costa del Sol. Þá er allt eins hægt að tala um Grænland og Japan.

Heyrt á ráðstefnu málfræðinga

Málfræðingur 1: Geturðu fallbeygt no. þrír?
Málfræðingur 2: Hvernig spyrðu?! Nú, þrír um þrjá frá þremur til þriggja.
Málfræðingur 1: Nei, í eintölu.
Málfræðingur 2: Í HVAÐA HEIMI LIFIR ÞÚ EIGINLEGA?! HVURSKONAR EIGINLEGA MÁLFRÆÐINGUR HELDURÐU AÐ ÞÚ SÉRT?
Málfræðingur 1: Nú, heimspekilegur málfræðingur.

Hættið þessari vitleysu

Í dag sagði vinnufélagi minn að kvak anda bergmálaði ekki. Honum varð fátt um svör þegar ég sagði honum að það væri bara urban legend. Eftirfarandi stendur á vísindavefnum:

„Hljóð er bylgjur sem við heyrum þegar þær skella á hljóðhimnunni. Bergmál eru hljóðbylgjur sem við heyrum eftir að þær skella á einhverju sem endurkastar þeim til okkar. Hljóðbylgjur andakvaks gegnir sömu lögmálum og aðrar hljóðbylgjur og þess vegna getur það bergmálað eins og önnur hljóð.

Í svarinu er hins vegar bent á það að ástæðan fyrir þeirri trú að andakvak bergmáli ekki sé ef til vill sú að sjaldan séu réttar aðstæður til þess:

Til þess að við heyrum bergmál úti í náttúrunni þarf ákveðin skilyrði eins og til dæmis klettavegg í hæfilegri fjarlægð. Endur eru hins vegar oftast á vatni eða í grennd við það á flatlendi. Þess vegna má vel vera að við heyrum í reynd sjaldan bergmál af andakvaki“.

Svart á hvítu. Inn jor feis. Hættið svo að halda fram þvílíkri vitleysu.

Blö

Hvers vegna spyrja viðskiptavinir IKEA mig í sífellu hvort ég vinni þar? Það er ekki eins og mér finnist merkjavaran svona flott.

Næstu fjóra daga mun ég ekkert vinna. Þá taka önnur skyldustörf við.

Hef ég eitthvað fleira að segja? Nei. Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands kveður að sinni.

Sönn saga

Klukkan er þrjú. Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands (st. MMBÍ) stendur við upplýsingaborð í IKEA. Hann er hugsi, því hann er ekki enn farinn í kaffi. Það er skrýtið. Skyndilega gellur við: Hey!
MMBÍ (kemur niður úr skýjunum): Já?
Kúnni: Hvað kostar þetta?
MMBÍ: Það stendur á miðanum.
Kúnni: Hvaða miða?
MMBÍ: Þessum gula.
Kúnni: …
MMBÍ: Hann hangir á stólnum.
Kúnni (lítur á miðann, muldrar): Já, já! Tek ég bara þennan?
MMBÍ: Nei, hann er í sjálfsafgreiðslu.
Kúnni: Hvað er það?
MMBÍ: Hún er inni á lager. Þar eru númeraðir gangar og hillur merktar bókstöfum. Það stendur á miðanum …
Kúnni (pirraður, grípur frammí): Og hvar finn ég þá þetta?
MMBÍ: Það stendur á miðanum.
Kúnni (lítur á miðann, les upp tölu og bókstaf): Og hvernig finn ég þetta?
MMBÍ (myrðir hann í huganum): Númerið er gangurinn sem hillan er í og bókstafurinn er hillan sem stóllinn er geymdur á.
Kúnni: Ég skil þetta ekki.

Klukkan er tæplega kortér yfir þrjú. Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands stendur við upplýsingaborð í IKEA, með hárið í höndunum. Hann er hugsi, því hann hefir komist að því, að einfaldleikinn er dauðadæmdur í höndum Íslendinga. Og hvar er stelpan, sem átti að leysa hann af? Veit hún ekki að hann er Merkilegasti og mikilvægasti bloggari Íslands?
Skyndilega gellur við: Ert þú að vinna hérna?
MMBÍ (snýr sér við, í huganum: Nei, og það stendur hvorki IKEA á skyrtunni minni né nafnspjaldinu): Jú *andvarp*, ætli það ekki …
Endir.