Undirbúningur hafinn

Var að koma úr bankanum, þar sem kaffið er alltaf svo gott. Mæli með að fólk eigi sín viðskipti við Íslandsbanka, þó ekki væri nema út af kaffinu. Var semsagt að færa fé milli korta. Ákvað að í þetta skiptið hefði ég helming alls á debitkortinu og afganginn á kreditkortinu, svo allt færi nú ekki fjandans til þótt ég tæki upp á að glata öðru þeirra.

Það spúkar mig raunar talsvert að heimabankinn sýnir ekki breytingu á innistæðu nema fyrir annað kortið, eins og há summa hafi horfið af tékkareikningnum og ekkert komið í staðinn. Annars hef ég fyrir löngu lært að treysta ekki heimabankanum mínum. Hann hefur sinn eigin vilja.

Í gær fékk ég sms frá skólafélaginu (ég hef þegar lýst vilja mínum til að hætta að fá slík skilaboð) þar sem útskriftarferðarförum var boðið að fá tíuþúsund krónur endurgreiddar í skiptum fyrir pláss á lélegra hóteli. Ég fyrir mitt leyti tel það vera flónsku að eiga að breyta margra mánaða áætlun á síðustu mínútum og tek ekki áhættuna á að enda úti á götu vegna allra mögulegra mistaka sem orðið gætu, og það í skiptum fyrir tíuþúsundkall. Ég vona bara að allir Jóakim Aðalendur þessarar ferðar lendi ekki í neinu veseni vegna þessa.

Næst er það leiðinlegasti hluti hvers ferðalags: Að pakka. Mig hryllir við.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *