Versta leikrit allra tíma?

„Halldór í Hollywood er nýtt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson sem frumsýnt verður 14. október. Leikritið byggir á Ameríkuárum Halldórs Laxness 1927-1929 þegar Halldór var ungur ofurhugi. Í Hollywood heillaðist hann af kvikmyndaiðnaðinum og ætlaði sér að slá í gegn sem handritshöfundur kvikmynda. Í leikriti Ólafs Hauks sjáum við hvernig dvöl Halldórs í Ameríku varð fyrst og fremst til þess að hann fann Ísland á ný og gerðist íslenskur rithöfundur. Við sögu koma ýmsir vinir og velgjörðarmenn Halldórs frá Ameríkuárunum, nokkrar af skærustu stjörnum Hollywood á þessum tíma eins og Charlie Chaplin og Greta Garbo og síðast en ekki síst allar konurnar í lífi hans“.

Úff! Hryllingurinn stendur mér eins skýrt fyrir hugskotssjónum og ef hér væru fimm trúðar útaðaðir í blóði og ælu að syngja Vengaboyslög. Sjáið þið ekki Kiljan fyrir ykkur, raunamæddan á koffortinu í slitnum Tweed-jakka með vasa fulla af brostnum draumum og Gretu Garbo stumrandi yfir honum: Þetta verður allt í lagi Halldór minn. Þú slærð í gegn á endanum!
Óekki, segir Halldór. Líf mitt á sér eingan frama hér í Amríkunni. Ég er haldinn heim á leið, til lands íss og elda, að pára sögur um kotroskna bændaskítsdurga sem kúaðir lifðu og forsmáðir í skugga dönsku krúnunnar. Ef ég aðeins hefði sorðið leikkventátuna þá arna hefðu hlutirnir máski æxlast öðru vísi.
Ókei, segir Greta. Ég er farin að leika í Wild Orchids eða einhverri annarri samtímakvikmynd. Charlie hefur ofan af fyrir þér á meðan.
Ólafur Darri gengur inn á sviðið í hlutverki Chaplins og dettur á rassinn. Halldór hlær hjartanlega og tjaldið fellur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *