Veikindi og verkefni

Sérdeilis er ég máttvana og duglítill þessa stundina. Og verkefnin byrjuð að hlaðast upp: Þýskupróf, tvær greinar, ein vel útpæld beinagrind að stórri ritgerð, kjánalegt líkamstjáningarverkefni í félagssálfræði, hugsanlegt þýðingarverkefni o.fl. Svo ekki sé minnst á önnur aðkallandi verkefni sem hrannast hafa upp í kringum mig til enn lengri tíma. Þessi vitneskja er ekki til að blása mér afli í brjóst.

Fundur í kvöld, fundur á fimmtudag, fundur á laugardag auk framtíðarfunda. Lesa Laxness, lesa Ishiguro, lesa The Closing of the Western Mind: The Rise of Faith and the Fall of Reason sem ég fékk að láni hjá Kjartani – þarf að skila eftir viku. Ekki spurt um tíma minn þar á bæ.

Skipuleggja fjármálin, skipuleggja fyrir félagslífið, skipuleggja eigið líf og hitta vinina. Æfa á gítarinn, stunda líkamsrækt (djók), semja kvæði og samt hafa tíma til átu og svefns.

Þriðja atriði þriðju efnisgreinar á náttúrlega að sjá um þetta allt saman. En hér sit ég og hef varla orku til að snýta mér. Þetta kalla ég haustdýfu númer eitt. Ég veikist alltaf á haustin, braggast og veikist aftur. Það er sumsé fyrsta dýfa af æði mörgum. Í fyrra var ég veikur fram í miðjan nóvember og sömuleiðis að mig minnir í hitt í fyrra. Þá fór ég til læknis sem kunni svarið við lífsgátunni af því einu að kremja á mér andlitið milli lófa sér. Það fannst mér ekki áreiðanleg vísindi. Öðru fremur er ég þess handviss að samanburður á bata þeirra sem fara til heimilislæknis og þeirra sem ekki fara til heimilislæknis myndi ekki skila marktækum muni. Sagði ekki Rómverjinn: Novus medicinus, nova sepulchrae.

Mikið er laugarneshverfið annars fallegt á haustbúngingnum svona baðað í sólarljósi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *