Málfarsráð dagsins

Hvað er athugavert við þessa setningu: „Hvernig talarðu drengur? Ég hef heyrt ungabörn tala réttari íslensku!“

Ef gagnrýna á málfar annarra, skal aðgæta að stíga ekki á bananahýði hrokans, og misfarast málfarslega í sjálfri gagnrýninni. Sum lýsingarorð eru merkingar sinnar vegna aðeins brúkleg í einu stigi, enda þótt þau séu málauðginnar vegna einnig til í hinum tveimur. Þannig er rökvillan sú sama þegar sagt er að eitthvað sé réttara en annað og þegar Napóleon í Dýrabæ Orwells lét bæta við lagagreinina „öll dýr eru jöfn“ að sum dýr væru þó jafnari en önnur. Því það sem er rétt er annað hvort rétt eða rangt, líkt og það sem er jafnt er alltaf jafn jafnt, enda væru allar viðbætur aðeins til að skapa mun. Og þar sem er munur er enginn jöfnuður. Og þar sem er sannleikur er ekkert „sannara“, og ennfremur er ekkert „réttara“ að finna meðal atriða sem öll eru rétt.

Í þessa gryfju falla kennarar oft þegar þeir semja krossapróf. Þá eru nemendur oftar en ekki beðnir að merkja við réttasta svarmöguleikann af mörgum réttum. Það er órökrétt bón og nær væri að biðja nemendur að merkja við ítarlegasta svarmöguleikann. Þannig væri líka betra að segja: Ég hef heyrt ungabörn tala betri íslensku, enda getur málfar verið misgott, og skiptist þá oft á rétt eða rangt. En ekkert málfar er réttara en annað frekar en sumir eru jafnari en aðrir.

Allt með kyrrum kjörum

Það var svo stillt úti í henni Reykjavík að mér fannst ég heyra nið aldanna, í hverri liðinni hreyfingu hreyfingarlausra trjánna, í hverjum andardrætti golu sem ekki var til staðar, í hverju fölnuðu blaði birkirunnsins, í hverju horfnu spori norðurljósanna, í hverju bliki löngu dáinnar stjörnu, í glitrandi fótsporunum sem eitt sinn prýddu frostbitna stéttina, líkt og minning um löngu dáinn mann, og í köldu glotti tunglsins, sem ekki lét sjá sig.
Haustið er fagur árstími og ber minning vetursins í skauti sér. Svona til að minna á það sem koma skal. Miklar og lofaðar séu stemmningar haustsins.

Vangaveltur

Ég hef aldrei skilið hvers vegna málabrautir framhaldsskólana eru kallaðar „flugfreyjubrautir“. Mikill er máttur þeirrar flugfreyju sem farið getur með Hómer og Evripídes á frummálinu.
Ég þykist ekki ná til botns í endaleysu þessa Baugsmáls. En hitt þykist ég vita, að hverjir svo sem það verða sem málið springur framan í, þeir verða í vondum málum. Nei, ég gleymdi því eitt andartak að ég bý á Íslandi, þar sem Davíð Oddssyni nægir að prumpa til að draga athyglina frá því sem meira máli skiptir.
Samkvæmt Closing of the Western Mind ætlaði Jesús sér aðeins að betrumbæta lagabókstaf gyðinga, fremur en að kollvarpa honum. Því var kristin kirkja áreiðanlega stofnuð í fullkominni óþökk þess upprisna.

Paul McCartney látinn

Paul McCartney er víst dáinn, samkvæmt sumum, og lookalike fenginn í staðinn. Í fyrstu fannst mér þetta fyndið, en svo sá ég þessa sjúku síðu, og fékk beint í æð hversu klikkað fólk getur verið. Þar er dagbók, lögð einhverjum í munn sem ég kann ekki að skýra hver er, en þar má meðal annars finna fremur ógeðfellda lýsingu á líki McCartneys.
Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að þessi orðrómur hefur verið í gangi síðan 1969. Fólk er mjög gjarnt á að lesa allt úr öllu, finna tákn og vísbendingar, og þegar viljinn er til staðar er ekkert einfaldara en að sjá skrattann í hverju horni. Ljósmyndasamanburðurinn í fyrsta tengli er öllu áhugaverðari (og fyndnari) en hvað söguna úr öðrum tengli varðar, þá hvorki veit ég né vil vita hvaðan hún kemur.

Ég er gamall karl

Ég sá að litli bróðir minn hefur fengið þá afbragðskennslubók Landnám Íslands, sem ég hafði í fimmta bekk. Bókin er skrifuð 1982, en kennslubækur þess tíma voru mun kröfumeiri og vandaðri, eins og sést þegar bókin er borin saman við annað það kennsluefni sem bróðir minn hefur haft.

Í Landnámi Íslands er meðal annars vitnað orðrétt (þó ekki stafrétt) í Landnámabók og Snorra-Eddu, fræðimenn spurðir álits um ýmis atriði landnámsaldar, þ.á.m. Kristján Eldjárn, sagt er frá forsendum Íslandsferða, lífinu á bæjunum, mýrarrauða til vopnagerðar, kumlum, stofnun Alþingis, helstu embættum og þuldir upp ýmsir Íslendingaþættir. Ekki amalegt fyrir kennslubók á barnaskólastigi.

Bækurnar sem hann hafði í fyrra eru hins vegar varla til að tala um. Ég hafði álíka þungar kennslubækur í öðrum bekk. Ekki veit ég hvað menntamálaráðuneytinu gengur til með slíkum endurbótum.

Tenglar og katólska kirkjan

Er ég kátur yfir því að hafa fengið tengil bæði hjá geimur.is (vampírur í blóðbankanum!) og b2.is (ekki er allt sem sýninst!!)? Nei, ekkert sérlega. Það var ekki ætlun mín að tæplega tvöþúsund manns kæmust að því hversu ófyndinn ég er. En þannig er það nú, menn þekkjast oft af þeirra verstu verkum.

Annars byrjaði ég að lesa The Closing of The Western Mind eftir Charles Freeman í gær. Hún fjallar um það þegar katólska kirkjan hafnaði allri rökhugsun og hóf að útbreiða hindurvitni sín og hégiljur vítt og dreift um Evrópu, svo allar vísindalegar framfarir máttu bíða daga Kópernikusar. Um þetta segir Freeman meðal annars:

„So one finds a combination of factors behind „the closing of the Western mind“: the attack on Greek philosophy by Paul, the adoption of Platonism by Christian theologians and the enforcement of orthodoxy by emperors desperate to keep good order. The imposition of orthodoxy went hand in hand with a stifling of any form of independent reasoning. By the fifth century, not only has rational thought been suppressed, but there has been a substitution for it of „mystery, magic and authority,“ a substitution which drew heavily on irrational elements of pagan society that had never been extinguished. Pope Gregory the Great warned those with a rational turn of mind that, by looking for cause and effect in the natural world, they were ignoring the cause of all things, the will of God. This was a vital shift of perspective, and in effect a denial of the impressive intellectual advances made by the Greek philosophers“.

Ég er aðeins rétt byrjaður á bókinni, en eins og sjá má kemur höfundur sér beint að efninu, svo segja má að bókin lofi góðu. Og þetta er ekki bara einhver bók eftir einhvern karl úti í bæ, þetta er lærð ritgerð, svo það er talsvert að marka hana.

Hinn hryllilegi sannleikur

Lengi hafði mig grunað að maðkur væri í mysunni hjá Blóðbankanum. Því fletti ég Sveini Guðmundssyni, yfirlækni Blóðbankans, upp í Íslendingabók. Þar kemur sannleikurinn í ljós: Hann lést 1817! Þá fletti ég upp stjórnarmeðlimum Blóðbankans. Friðrik Pálsson, formaður bankastjórnar, lést 1832. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir lést 1919, en Halldór Jónsson lést 1682.

Varið ykkur á Blóðbankanum, því þar sitja vampírur við stjórnvölinn. Þetta samsæri hefur gengið nógu lengi. Nú er tími aðgerða!