Örlítil forsaga Bítlanna

Í fyrstu hélt ég að hér væri verið að rugla saman tveimur mönnum, þar sem ég hef aldrei áður heyrt George Best kallaðan fimmta bítilinn. Hins vegar hét fyrsti trommari Bítlanna Pete Best, sem þeir skiptu út fyrir Ringo Starr á Hamborgartímabilinu. Svo hefur Stuart Sutcliffe oft verið nefndur fimmti bítillinn, þótt „gleymdi bítillinn“ hefði verið meira viðeigandi. Hann var alltaf mjög feiminn, sneri bakinu í áhorfendasalinn þegar hann spilaði, kunni ekki á hljóðfæri, var listanemi og afbragðsmálari, en það sagði fólk áreiðanlega bara vegna þess að hann dó. Hann dó úr heilablóðfalli, að því er talið er, áður en Bítlarnir urðu frægir. Skömmu áður höfðu hann og Lennon lent í rifrildi vegna þess að Sutcliffe fannst McCartney ekki vilja hafa sig með lengur, og líklegast var það rétt hjá honum. McCartney hefur væntanlega stefnt hærra en svo að hafa hæfileikalausa bassaleikara í hljómsveitinni.
Um þennan gleymda bítil var gerð kvikmyndin Backbeat, og þykja leikararnir allir ískyggilega líkir fyrirmyndum sínum. Myndin mun þó vera ofurdramatíseruð, eins og allar aðrar slíkar myndir.