Enskar óperur og tenglastefna

Áðan keyrði ég stjúpbróður minn, hver er meðlimur í einni af þessum absúru klíkum sem tröllríða bloggheimum um þessar mundir, í Kópavoginn. Á leið minni til baka kveikti ég á Útvarpinu og brá í brún við að heyra óperu á ensku. Tónlistin var flott, draugaleg og kraftmikil, en mér finnst sem það ætli aldrei að takast að láta hrynjandi og enska tungu fara saman í óperum. Fyrir utan auðvitað aulahrollinn. Brrr!

Talandi um bloggklíkur hér að ofan, þá er ekki úr vegi að birta hér hluta af stefnu Bloggsins um veginn er snerta tengla, vegna nýlegra fyrirspurna:

Bloggið um veginn tengir ekki á bloggklíkur á borð við Fazmo, Kalla.is né nokkuð annað í þá veruna (hvorugur hópur hefur raunar æskt þess). Bloggið um veginn iðkar ekki sjálfvirka tenglastefnu, id est að tengja einfaldlega á hvern þann er tengir á það. Bloggið um veginn hefur vilja æðri umsjónaraðiljum þess, sem þannig virkar í praxís, að Bloggið um veginn tengir á þær síður sem eru því til skemmtunar eða andlegrar upplyftingar. Bloggið um veginn tengir óháð veraldlega áþreifanlegum tengslum, enda er heimur þess á öðru tilverustigi og af fullkomlega óáþreifanlegum toga.

Exempli gratia: Aðili A, kunnugur umsjónaraðiljum Bv, æskir þess að síðarnefndir tengi á sig. Við þetta gæti fernt verið að athuga:
I. Bv ræður sér sjálft, ekki umsjónaraðiljar þess. Ef Bv hefur ekki þegar tengt, en það tengir af geðþótta, eru ekki líkur á að það geri það þaðanaf. Á því er möguleg sú undantekning, að hafi tilvist síðunnar sem umsjónaraðiljum er bent á ekki áður verið ljós Bv.
II. Aðili A er hluti af bloggklíku. Bv tengir ekki á bloggklíkur.
III. Síðan sem Aðili A biður um tengil á veitir Bv enga andlega fróun. Bv tengir ekki á síður sem því finnst leiðinlegar.
IV. Aðili A biður um tengil. Bv er tregt til að tengja á þá sem biðja um tengil. Ekki síst í ljósi liðar I.

Þetta er stefnan. Allar stefnubreytingar þarf að leggja fyrir aðalfund Bv, æðsta löggjafarþings þess, sem haldinn er þann 30. febrúar hvert ár. Allar breytingartillögur þarf að leggja skriflega fram með minnst fjögurra ára fyrirvara, svo hægt verði að fara tímanlega yfir þær í allsherjarnefnd Bv.

Kitlaður (meira samt eins og að vera kýldur)

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. Finna mér konu.
2. Gefa út bók.
3. Ljúka doktorsprófi í a.m.k. einu fagi.
4. Ljúka BA-gráðu í a.m.k. þremur fögum.
5. Flytjast búferlum til Ítalíu.
6. Ferðast um víðan og breiðan heiminn.
7. Bæta sjálfan mig.

Sjö hlutir sem ég get:
1. Ort ljóð undir ýmsum háttum.
2. Spilað á gítar.
3. Sýnst hrokafullur.
4. Talað endalaust um bókmenntir.
5. Lesið kýrillíska stafrófið.
6. Státað mig af ítarlegri móðurmálsþekkingu þrátt að kunna nær engin málfræðihugtök.
7. Verið mjög persónulegur.

Sjö hlutir sem ég get ekki:
1. Hlegið.
2. Þóst hlæa.
3. Viðurkennt orðið hlæa með j-i.
4. Lesið flestar nútíðarbókmenntir.
5. Viðurkennt skáldsnilld Eggerts Ólafssonar.
6. Staðið á mér að leiðrétta þegar ég veit eða þykist vita betur.
7. Blístrað.

Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
1. Persónuleiki sem svipar til míns (flest annað hér fellur undir sömu kategóríu).
2. Vitsmunir.
3. Augun. Þau ljúga aldrei.
4. Estetískt gildismat.
5. Viss pólitísk oríentasjón.
6. Fögur ásjóna (ekki lýg ég öðru).
7. Samræðugeta (sumir geta einfaldlega ekki átt í samræðum).

Sjö frægir kvenmenn sem heilla mig:
1. Beatrice hans Dantes.
2. Venus frá Míló.
3. Lenore hans Poe.
4. Helena fagra, greyið.
5. Sharbat Gula.
6. Elísabet I. Englandsdrottning.
7. Júlía, úr Rómeó og-.

Sjö orð eða setningar sem ég segi oftast:
1. Nei.
2. Ha?
3. Kemurðu á kaffihús?
4. Þetta er mesta snilld sem skrifuð hefur verið á íslenska tungu!
5. Eru það ekki bara rúnkbókmenntir?
6. Þetta eru bara sinnulausir ræflar!
7. Þessi vara er því miður ekki til.

Sjö manneskjur sem ég ætla að kitla:
1. Alli.
2. Hjördís.
3. Þorkell, því honum finnst svona svo skemmtilegt.
4. George Bush.
5. Silja.
6. Sunna.
7. Magga Svava.