Góð fyrirmynd

Ég mun aldrei, aldrei, aldrei taka þá afsökun gilda, að Bond sé hafður reyklaus í nýju myndunum til þess að sýna gott fordæmi. Þeir myndu sýna betra fordæmi með að beinlínis auglýsa lækningarmátt tóbaks, en að framleiða kvikmyndir um kaldrifjaðan kvenfyrirlítandi alkóhólistamorðingja, sem vinnur við að berjast við Þjóðverja og Rússa, vegna þess hve átakanlega vondir þeir eru í eðli sínu. Og hvernig dettur sama leikstjóra í hug, að vilja heldur kvikmynda atriði þar sem Bond er pyntaður þannig, að illmennin „berja kynfæri hans með teppabankara“. Er einhver kvóti sem honum er úthlutað? Já, veistu, við skulum sleppa reykingunum, því annars nær kvótinn ekki yfir teppabankaraatriðið. Því miður, en það er annaðhvort eða, gott fólk! Ekki megum við sleppa þessu geysimikilvæga atriði!

Nei, það á ekki að afsaka reykleysi Bonds. Ef þeir vilja ekki að hann reyki, þá reykir hann ekki. Það er nú ekki flóknara. Aukinheldur þykir þetta ekki beinlínis róttæk breyting á persónu hans, þar sem hann hefur ekki reykt guðmávitahversulengi, jafnvel ekki síðan á níunda áratugnum.

Ljóðakvöld

Í gærkvöldi stóðum við Kári og Dóri fyrir ljóðaupplestri á Café Babalú á Skólavörðustíg. Það verður ekki annað sagt en það hafi lukkast ágætlega, uppátækið kom gestunum skemmtilega á óvart, en viðburðurinn hafði ekki verið auglýstur sérstaklega. Ég er eiginlega ánægður með að hafa riðið á vaðið, því bæði Kári og Dóri voru svo góðir að ég hefði ekki viljað fara á eftir þeim. Þaraðauki veittu ljóðin þeirra mér nýja sýn á málin og veittu mér margar nýjar hugmyndir. Það er ekkert hollara skáldaspíru en að heyra og lesa annarra verk. Það er forsenda þess að hann þroskist útyfir bernsubrekið. Meira af þessu!

Ljóð dagsins er eftir Dóra, án hans leyfis, með von um að það verði ekki tekið óstinnt upp:

Von

Í hvert sinn sem ég sé þig
þá líður mér
eins og þegar ég sé
lögreglubíl í baksýnisspeglinum.

Jafnvel þótt engin hætta sé á ferð
þá tekur hjartað kipp
því það er alltaf möguleiki
á að eitthvað gerist.

– Halldór Marteinsson

Ljótur grikkur

Mikið er það skelfilegt þegar menn stela jeppa, strípa hann og hreinsa innan úr honum. Það er ljótur grikkur. Ekki hafa þeir hugsað til eigandans, hvernig honum yrði um, þegar hann kæmi að bílnum sínum berháttuðum og hreinum að innan. Þetta létu þeir sér ekki nægja, heldur rifu þeir sætin, klæðningu, framstuðara og einhvern ljóskastara, eftir að þeir höfðu þrifið alltsaman hátt og lágt. Jahérna, hve grimmur hann er þessi heimur.

Hvað næst? og tilvitnunin frá í gær

Jónína Ben. Fleiri orð eru óþörf.

Tilvitnunin sem ég birti í gær var í ömmu mína. Það sá enginn. Þessi orðnotkun hennar, sem mér finnst svo dæmalaust skemmtileg, er á útleið. Hún er áreiðanlega í hópi hinna hinstu sem tala svona. Samt talar hún ekkert sérlega forneskjulega. Þetta er aðeins dæmi um að orðnotkun breytist milli kynslóða, synd sé að því. Menn eru farnir að nota of gildishlaðin orð núorðið, í ritmáli þykir það og bera merki um þeim mun meiri áherslu sem upphrópunarmerkin eru fleiri. En amma er pen: Hann er nú ekki alminlegur. Þannig finnst mér eigi að tala.