Jólagjafir o.fl.

Margt fékk ég ágætt í jólagjöf nú í ár. Raunar fékk ég flesta pakka, aldrei þessu vant. Þegar ég var lítill fékk ég iðulega flesta pakka, vandist svo af því upp úr gelgjunni og finnst það núna ekkert skemmtilegt að fá fleiri pakka en aðrir. Af því sem ég fékk mætti helst nefna ljóðabókina Hætti og mörk eftir Þórarin Eldjárn, hverja ég hef nú þegar lesið og get sagt að er stórfín, Argóarflís Sjóns, Stóru orðabókina, Hugsjónaeld (æfisaga Einars Olgeirssonar), Íslandsatlas Eddu, Um skáldskaparlistina eftir Aristóteles og 50 ml. flösku af skuggalegu, tólf ára gömlu dönsku viskí sem virðist ekki heita neitt. Allt góðar gjafir sem ég er þakklátur fyrir að hafa fengið.

Nú eru það matarboðin hægri vinstri sem gilda. Æ, hvað ég nenni því ekki.

Svo, að hinstu, þá er kannski rétt að taka fram að breytingar verða á Kaninkunni von bráðar og skipt verður um bloggkerfi. Lesendum þarf því ekki að bregða þótt síðan mín líti skyndilega svona út.

2 thoughts on “Jólagjafir o.fl.”

  1. Hehe,þetta er nefnilega ekki 12 ára gamalt viskí,heldur er þetta svokallaður essens. Það sem þú færð eftir áramót er u.þ.b 700 ml af spíra,sem þú hellir síðan essensinum útí. Þá áttu að vera kominn með 12 ára viskí!! Nú er þetta ennþá skuggalegra,ekki satt? 😉

Lokað er á athugasemdir.