Hversdagsleikinn tekur við

Það gerist helst til oft að ég hlaupi í tölvuna með næstu arkímedesarskrúfu í hausnum og sé búinn að gleyma því strax og ég sest niður fyrir framan hana. Þetta henti mig rétt í þessu. Guð má vita hvenær ég man hvað var svona mikilvægt.

Ég hef samið við starfsmannastjóra vinnustaðar míns um að fá að segja upp með mánaðar fyrirvara. Minna mátti það nú ekki vera. Þá fyrst hefst atvinnuleitin fyrir alvöru!

Ég hef tekið mér frí frá sjálfboðastörfum aukreitis til að ná áttum í kraðaki verkefna og persónulegra flækjumála. Betur mætti þó minnka álagið, en það er því miður ekki nokkur vegur. Ekki nema ég segi upp störfum hjá auðvaldinu, en það þarf að bíða betri tíma. Fyrst er að finna aðra vinnu.

Við taka þrjár ritgerðarsmíðar næstu daga, sem ég nenni ekki að hafa mig í, tvær bókmenntaritgerðir og ein sagnfræðiritgerð. Fjallar sú síðastnefnda um þversagnir kirkjunnar miðað við frumkristni. Hinar munu fjalla um Argóarflísina eftir Sjón og Ljóðasmygl og skáldarán eftir Andra Snæ.

Ég las áðan ljóð úr bókinni Svarthol eftir Steinar Braga, sem fjallaði um eðlisfræði hlands. Í alvöru talað, hvað er að þessum manni?