Óreiða

Dagarnir líða fljótt núorðið. Fullfljótt. Ég lendi í þeirri aðstöðu sérhvern dag að það vantar nokkrar klukkustundir í sólarhringinn svo ég fái lokið verkum mínum. Vegna þess ég er seinn til verka. Ég þarf greinilega að endurskipuleggja daginn og minnka eftirlátssemina við sjálfan mig. Hefði ég einkatölvu myndi ég einfaldlega refsa sjálfum mér og skrifa alla nóttina. Því miður hef ég ekki þann munað að geta refsað sjálfum mér þannig nema pynta móður mína í leiðinni, þar sem tölvan er í hennar herbergi.

Fjölgreindakenningin

Ég mun víst neyðast til að lesa um fjölgreindakenningu Howards Gardners á þessari önn. Leyfist mér þá að vitna til hans sjálfs:

Ultimately, it would certainly be desirable to have an algorithm for the selection of an intelligence, such that any trained researcher could determine whether a candidate’s intelligence met the appropriate criteria. At present, however, it must be admitted that the selection (or rejection) of a candidate’s intelligence is reminiscent more of an artistic judgement than of a scientific assessment.

(Gardner, Frames of Mind: The Theory of Multiple Intelligences, 1985)

Kenningin hans um greindir er sumsé svo glæsileg og merkileg að hún er hafin yfir skilgreiningu á greind. Hann getur ekki skilgreint greind á fullnægjandi hátt svo hún falli að kenningunni, svo hann sleppir því. Ennfremur segir hann að kenning sín sé hafin yfir empírískar rannsóknarhefðir. Svo gagnrýnir hann þá sem segja hann aðeins hafa valið nýtt orð yfir hæfileika, en sé í raun ekki að benda á neitt nýtt. Í raun er þetta samt nákvæmlega það sem hann gerir:

Once someone adopts Gardner’s position, the entire idea of studying intelligence is meaningless. Any ability is intelligence, thereby reducing the meaning of the word „intelligence“ to „interest“. In accord with this prediction, Gardner has repeatedly changed his theory; students who show an interest in nature are now deemed to have „Natural intelligence“, and students interested in spirituality or religion are now deemed to have „Spiritual intelligence“.

(Wikipedia, Theory of multiple intelligences)

Fyrir utan svo auðvitað hinstu rökin. Einhverju hlutverki hlýtur kenning Gardners að eiga að gegna öðru en því einu að vera kenning. Og það er þetta: Hann vill að gripið verði í taumana strax á frumstigum skólakerfisins, þ.e. að einstaklingsbundnar greindir skólabarna verði viðurkenndar strax í upphafi, og þeim verði eingöngu kennd fög í samræmi við það. Eingöngu. Fyrir utan það, að hann telur ekki hægt að sýna fram á sömu greindir og hann neitar að skilgreina á fullnægjandi hátt, með empírískum hætti, þá vill hann láta ákvarða framtíð allra strax í barnaskólanum. Fengju hugmyndir Gardners að ráða hefði ég e.t.v. verið sendur í myndlistarnám, vegna þess að fullkomlega dómbærum kennurum mínum – með sitt þriggja ára nám í uppeldis- og kennslufræði – fannst ég góður teiknari.

Já, þetta er ansi góð hugmynd hjá þér, Gardner. Fyrir mitt leyti vil ég að mín börn fái sjálf að velja sér framtíð. Og ég fæ ekki með nokkru móti skilið hvers vegna margir hafa gleypt þessa kenningu hráa.

Mismunandi áherslur

Ég sé að móðir mín hefur keypt kaffi sem kallast „Frískleg morgundögg“. Ekki skil ég hvað í ósköpunum fékk hana til að kaupa þetta sull. Mitt kaffi skal heita „Tjara“ eða ekkert. Frískleg morgundögg, það er eitthvað sem ég myndi kalla teið mitt.