Verkefnafjöld og óréttlæti

Ég sé það æ betur hvað ég þarf að leggja mig þeim mun meira fram á öllum sviðum til að ná tilteknum árangri. Viðjar vanans geta oft reynst mönnum fjötur um fót og viljanum yfirsterkari (sé hann á annað borð til, um það skal ég ekki fullyrða). Það er kannski rétt að tilraunir séu dæmdar til að mistakast, þar sem þær eru í eðli sínu aðeins tilraunir. Þá er kominn tími til aðgerða, sérstaklega þegar vinnan hrannast upp í kringum mann án þess maður hreyfi nokkuð við staflanum. Bara finna rétta hvatann. Ég hef áður gengið þessa blindgötu, svo ég ætti að vera farinn að þekkja hana.

Ég harma fréttir sem þær þegar mér yngra fólk deyr í bílslysum. Það mætti vera til meira réttlæti í heiminum. En því miður er ekkert við því að gera. Það er eins og barátta við sjálfan tímann.