Sturlun

Sturlaði námsmaðurinn vakir alla nóttina við að hugsa um eitthvað allt annað en námið. Mætir svo í skólann ósofinn, ekki til að læra neitt, ekki til að hitta neinn, heldur af óskiljanlegri skyldurækni. Hvað hefur hann svo sem þarfara að gera?

Sturlaða námsmanninum er það eitt til trafala, að þegar hann kemur heim og líkami hans væntir þess að nýjum svefntíma sé haldið til haga, þá þarf hann að hafa sig allan við til að líða ekki út af, vegna þess að sænska auðvaldið spyr þræla sína ekki hvort þeir séu þreyttir, þeir skulu gjöra svo vel að mæta til vinnu, hvar andlitslaus múgur tætir þá í sig eins og þránað kjöt á þorra.

Þegar svo er komið fyrir sturlaða námsmanninum myndi hann sætta sig við næturvaktina í líkhúsinu fremur en raska svefntímanum fyrir kortafyllerí andlitslauss múgs. Líkin hafa í það minnsta ekki yfir neinu að kvarta.
Nei, sturlaður sem námsmaðurinn er, er honum það engu að síður fullljóst að hann myndi hugar síns litla vegna aldrei geta unnið í líkhúsi. Aukinheldur æskir hann þess ekki að reyna. Stundum segir sturlaði námsmaðurinn bara sisvona. Enda er hann sturlaður.