Þríleikur án miðju

Ég er kominn með það! Það er lag og það er í dúr (merkilegt nokk). Það átti að vera lokakaflinn í þessum þríleik en svo passar það ekki við lok annars kafla. Það þýðir að ég þarf að endursemja annan kafla, sem er allt í lagi vegna þess að hann sökkar. Einnig hefur komið upp úr dúrnum að heildarverkið verður ekki allt rómansa. Sem er fínt vegna þess annarsvegar að hún er of afmörkuð, hinsvegar vegna þess ég er ekkert sérlega merkilegur gítarleikari. Það skapar samt viss vandamál þegar kemur að því að tengja alla hlutana saman. Ég er raunar ekki allsendis viss um hvort ég vilji hafa það þríleik. Fyrsti hlutinn er dapur, annar hlutinn er eins og áður segir í skralli og þriðji hlutinn er nær fullkomin hamingja. Eiginlega er alltof flókið fyrir mig að vinna úr þessu. En kannski verður á endanum til regla úr nógu miklum kaos.

Uppgötvun

Fjórar til sex blaðsíður orðnar að þrettán með tilvísanaskrá. Verk hafið klukkan 14:12 á sunnudegi. Verklok klukkan 19:21 á mánudagskvöldi. Tveggja daga vinna, afrakstur slæmur. Afar slæmur. Sama kvöld klukkan 19:53 uppgötvast: Ríflega hundrað blaðsíður fyrir listasöguprófið á morgun.

Api get ég verið.

Hugmyndir

Hugmyndir fæðast og deyja á hverjum degi. Þokan sem hékk neðan úr ljósastaurunum í gær eins og ljósofin himnasæng færði mér eina góða á silfurfati, sem krefst þess að verða að smásögu. Hingað til hafa allar mínar hugmyndir eyðilagst við þá umbreytingu. Vona að raunin verði önnur í þetta skiptið.

Aðra hugmynd fékk ég rétt í því ég lagðist til svefns í gærkvöldi, sem hélt fyrir mér vöku það sem eftir lifði nætur. Þeirri hugmynd er erfitt að ýta úr vör, en möguleikarnir eru góðir. Best væri þó ef ég væri búinn að kortleggja skerin áður ég held út á umlykjandi brotsjó.

Báðar þessar hugmyndir eiga eitt sammerkt: Ég mun ekkert geta unnið að þeim næsta mánuðinn eða svo. Blööööh!

En heyrið mig, finnið þið vorið í loftinu? Fyrir utan leika sér litlir þrestir í vatnspolli í skugga trjánna undir drúpandi sól. Svo mikið er víst að lóan er úrelt eins og eimreiðin, breyttir tímar og allt það. En það er margt gott í uppsiglingu. Ég bara finn það.

Vor í Reykjavík

Vor í febrúar, snjór í apríl. Í smásögunni Snjór í apríl eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson reynist kynleg veðrátta vera þónokkur örlagavaldur. Læt vera að nýsprottnir laufsprotar reykvískra trjáa muni kúvenda mörgum lífum, en í það minnsta hafði ég ekki fundið fyrir svo tærum stemningum í lengri tíma, líkt og allt árið eins og það mun verða hafi staðið mér skýrt fyrir hugskotssjónum, öll mín markmið, allar ambísjónir, allar sömu væntingar sem iðulega eru gerðar til nýs árs en ég geri aldrei (vegna þess að áramót eru ekki tímamót), allt fannst mér ég hafa á hreinu þar sem ég sat á Prikinu með kaffibolla og horfði út um gluggann á íslenska febrúarvorið. Engu að síður vissi ég, meðan vorhugurinn réðist á mig úr öllum áttum með rómantískum áróðri um fuglasöng í andvara sumardags á grænum grundum, að líkast til mun snjóa í apríl, líkt og undanfarin ár, og að alltaf munum við verða eins hissa á því.

Bókmenntarýni: Sumarljós og svo kemur nóttin

Vegna áskorunar birti ég fyrirlestur minn um Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson, sem ég flutti í skólanum í dag. Set þann fyrirvara á að hún var hraðunnin og að sjálf efnisyrðingin sem ég lagði upp með frá upphafi týndist í hugmyndaflóðinu meðan ég spann mér leið í kringum hana. Þess vegna er spurningunni sem ég varpa fram í upphafi fyrirlestursins látið ósvarað, ekki svo að skilja að ég gæti ekki svarað henni hér og nú, ég bara nenni því ekki. Fyrir utan svo auðvitað það að mögulega fæli það í sér að ég eyðilegði bókina fyrir einhverjum. Rétt er að geta þess að hugtakið „þorpssál“ fæ ég lánað úr þessari gagnrýni á bókina.
Fyrirlesturinn var alltof langur, en í raun alltof stuttur til að gera bókinni nægileg skil. Ég hefði getað þvaðrað um hana á tuttugu blaðsíðum í stað þeirra fjögurra sem ég skrifaði. Svo er endirinn snubbóttur. Hvað sem því líður, þá er hér fyrirlesturinn í heild sinni, eins og hann var fluttur, lesendum Bloggsins um veginn (vonandi) til yndisauka:

Lífið virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu. Þau orð má finna í inngangskafla bókarinnar Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson. En hvað merkja þau? Það er ef til vill það sem bókin snýst um.
Sögusvið bókarinnar er ótilgreint smáþorp á vesturlandi. Á yfirborðinu sýnist allt með felldu, en það er sem vænti mátti ekki tilfellið. Bókin hefst á inngangskafla þar sem þorpinu er lítillega lýst, t.a.m. er tilgreint að þar sé enginn kirkjugarður og staðreyndin túlkuð sem forsenda hás meðalaldurs í þorpinu, líkt og hann sé ósjálfráð tillitssemi. Mest um vert í inngangsorðunum er að þar kemur fyrst fram annarsvegar það barnslega kæruleysi sem einkenna mun bókina út í gegn, svo og alvitur frumspekitónninn sem aðeins glymur þegar mest á þarf. Kæruleysið sést á kirkjugarðssögunni. Grunntónn heimspekinnar er sleginn hér:

„… á kvöldin blæðir sólinni yfir [fjörðinn] og þá hugsum við um dauðann … Hefurðu annars leitt hugann að því hversu margt er tilviljunum háð, jafnvel allt? … sjaldan vitglóra í hendingum og líf okkar þá lítið annað en stefnulaust ráf, þetta líf sem virðist stundum fara í allar áttir en endar svo iðulega í miðri setningu …“

Sögumaður er ekki einn heldur allir – segja má að sögumaður sé í raun þorpssálin, eitthvert við sem allt yfirsér en er engu að síður algjörlega óhlutbundinn og óháður þorpsbúum; ef til vill ímynduð þorpssál, afleiðing þess ef þorpsbúar sameinuðust allir í einn, með alla sína vitneskju, reynslu og trega, svo úr yrði nokkurs konar alvitur meðvitund. Þorpssálin er þó hvorki afgerandi né ráðandi afl í frásögninni. Stærstan hluta bókarinnar heldur hún sig til hlés og hleypir frásögninni óhindrað að. Í raun er bókin tvískipt: Það eru kaflar og millikaflar. Kaflarnir eru frásögnin, en þorpssálin býr í milliköflunum. Án þeirra, leyfi ég mér að segja, væri bókin lítils verð; þeir binda hana saman, gefa henni heildarsvip og heildarhugsun. Án þeirra væri bókin aðeins smásagnasafn.
Ég minntist á trega hér áður, og það af ærinni ástæðu, því við enda forleiksins er hinsta stemningsnótan slegin fyrir symfóníu verksins, og allt sem eftir kemur tekur mið sitt af því:

„… hér verður þó örugglega sagt frá girndinni sem hnýtir saman daga og nætur … Við segjum frá hversdagslegum atburðum, en líka þeim sem eru ofvaxnir skilningi okkar … og að sjálfsögðu ætlum við að segja þér frá nóttinni sem hangir yfir okkur og sækir afl sitt djúpt út í geiminn, frá dögunum sem koma og fara, frá fuglasöng og síðasta andartakinu, þetta verða áreiðanlega margar sögur … og nú byrjum við, hérna kemur það, kátína og einsemd, hófsemd og rökleysa, líf og draumur – já, draumar.“

Hér byrjar bókin. Minnst hefur verið á skiptingu bókarinnar í kafla og millikafla. Kaflarnir þjóna tilgangi frásagnarinnar og hver og einn þeirra er sjálfstæð saga úr þorpinu. Ekki tjóar að tíunda efni hvers kafla fyrir sig. Það væri í senn tilgangslaust og óáhugavert. Í bókinni eru engar aðalpersónur, aðeins fólk sem kemur og fer. Sumar persónur koma raunar oftar fyrir en aðrar, en það er ekki til þess gert að veita þeim meira vægi í frásögninni og þaðanafsíður er það gert vegna þess að einhverjar þeirra séu mikilvægari en aðrar. Þetta gerir Jón Kalman til þess að skapa raunverulega tilfinningu fyrir þorpinu. Í raunveruleikanum er það svo að fólki hættir til að bregða misoft fyrir, jafnvel svo langur tími líði milli þess þú hittir það. Tilfinningin sem grípur lesandann er einmitt þessi: Er þetta raunveruleiki? Þorpið er stærra en frásögnin. Glugga frásagnarinnar mætti líkja við stakan ramma uppi á hálendi; hann snýr aðeins í eina átt og jafnvel þannig heldur hann ekki öllu umhverfinu sem við honum blasir. Slíkur er máttur stílbragðsins, það nægði ef aðalpersóna eins kafla sæist kaupa sér pylsu í öðrum, þá væri áhrifunum náð; þorpið er hér og það er til.
Treginn. Lýst hefur verið hvernig Jón Kalman skilur við hið ytra, en hið innra er ekki síður mikilvægt. Í raun er það mikilvægara. Því á yfirborðinu virðist allt með felldu, eins og áður var getið, en i raun fer því fjarri. Ekki einungis lesum við um fólkið í þorpinu, við kynnumst því, komumst að leyndustu hugsunum þeirra, finnum þrár þeirra, vonir, væntingar, ótta, ást þeirra, reiði og gremju. Og það er meira en að segja það, þetta þarf hver og einn að upplifa, til að skilja tregann. Þorpssálin gerir sitt til að skapa þennan trega, en gerir það meðan hún reynir að draga úr honum. Eftir vægast sagt erfiðan kafla um framhjáhald sem endar með pyrrhosarsigri aðalpersónunnar, reynir þorpssálin að beina huga lesandans annað:

„Til hvers hef ég lifað, spurði frænka okkar á dánarbeði, við opnuðum munninn til að svara, án þess þó að vita svarið, en þá dó hún, því dauðinn er ennþá góðu skrefi á undan okkur.
Við höfum séð nóttina koma yfir fjöllin og stóðum úti þegar vægur skjálfti fór um loftið, fuglar litu upp og síðan reis eldhnöttur í austri. Til hvers lifum við; er óhætt að svara svona spurningu? Kannski ekki, höfum við eitthvert hlutverk, umfram það að kyssa varir og svo framvegis? En stundum og þá einkum rétt áður en svefninn yfirbugar okkur á kvöldin og dagurinn er liðinn með allan sinn óróleika, við liggjum uppi í rúmi, hlustum á blóðið og myrkrið kemur inn um gluggana, þá vaknar sá djúpi og óþægilegi grunur að þessi nýliðni dagur hafi ekki verið nýttur sem skyldi, það hafi verið eitthvað sem við hefðum átt að gera en vitum bara ekki hvað það var. Hefurðu stundum velt því fyrir þér að aldrei í sögunni höfum við haft það jafn gott, einstaklingurinn aldrei haft meiri möguleika til að hafa áhrif á umhverfi sitt, aldrei verið jafn auðvelt að vera þátttakandi, en sjaldan jafn lítill vilji – hvernig skyldi standa á því? Getur verið að svarið leynist í annarri spurningu: Hverjir græða mest á slíku ástandi?“

Þetta er ekki sérlega huggandi. Eiginlegt hlutverk þorpssálarinnar er heldur ekki að vera huggandi. Hún er til staðar til að veita okkur innsýn í sálarlíf þorpsbúa, sýna okkur heiminn eins og hann er undir gljábónuðu yfirborðinu. Lífið er ekki auðvelt, það er enginn dans á rósum, það er hér eins og það er þar og það er raunverulegt og það er tregablandið, en það er ekki algjör hörmung, það er fallegt þótt það sé ljúfsárt. Bókin er hreint ekkert þunglyndisraus, heldur undirstrikar einmitt hún fegurð lífsins og ástarinnar og það eilíflega mikilvæga atriði sem fer framhjá svo mörgum, að það er gott að lifa:

„Það er gott að vakna snemma hérna í þorpinu. Þeir sem búa næst sjónum hafa síkvikan hafflötinn í stofuglugganum og geta staðið úti á veröndinni með kaffibolla í hendinni, kannski berfættir, hlutsað á ögn rámt masið í æðarfuglinum, hrjúfar athugasemdir mávsins, grábjört skýjahellan hreyfist ekki í logninu, hafið bærist varla, einungis smáöldur sem færa nokkra steina í kaf, svo koma þeir aftur upp til að anda. Þarflaust að hugsa nokkuð, maður er bara til, hlustar, tekur á móti veröldinni, hljóðum morgninum, heimsveldi verða að dufti á svona stundum.“

Sumarljós og svo kemur nóttin er ekki saga, heldur eftirmynd af lífinu, eins og það raunverulega er. Hún er þó engan veginn raunsæisrit, hún er fullkomlega rómantísk. Og það er hennar helsti styrkur. Hún dregur upp mynd af samfélagi innan samfélags, sem er fjarlægt okkur en við þekkjum þó öll, sýnir persónur eins og fólk en ekki sem persónur, hliðstæður heimur fullkomlega sem þó er hluti af okkar eigin heimi. Þetta er bók sem situr þungt en flýgur létt. Því til sönnunar gæti ég fundið ýmislegt til; fegurstu jafnt sem erfiðustu lýsingarnar eru eftir, en þær læt ég væntanlegum lesendum eftir að upplifa í samhengi bókarinnar.

Jón Kalman Stefánsson hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina og var það fyllilega verðskuldað að mínu mati. Stíllinn er vopn hans, hugsunin þroskuð, undirtónninn fágaður. Sumarljós og svo kemur nóttin kemur út á tímum póstmódernískrar bókmenntahefðar og tekur vinninginn. Fyllilega er það bók sem allir ættu að lesa.

Gæluverkefnið tekur völdin

Ekki velur maður sér gæluverkefni eftir umfangi, svo mikið er ljóst. Sum hver virðast á stundum eins ómöguleg viðureignar og ef brúa ætti bilið milli Mars og Venusar (ath. myndmál). Þegar þannig viðrar skal ekki láta deigan síga heldur hella sér út í baráttuna af meiri krafti. Bara að passa upp á að gæluverkefnið nái ekki yfirhöndinni, eins og henti mig áðan, þegar ég gleymdi mikilvægu prófi sem er á morgun og aflaði mér hvorki lesefnis né upplýsinga um hvaða kafla ætti að lesa. Ótrúlegt þykir mér þó að það er í þann mund að bjargast, senn fæ ég lesefnið og upplýsingarnar komnar í pósthólfið. Fyrir horn slapp sá armi maður.

Rétt í þessu er svo hringt í mig, haldiði ekki, og mér tjáð að prófinu sé frestað um viku. Naumast forlögin maður, ha? Og skilafrestur á stóru ritgerðinni rýmkaður um hálfan mánuð. Það er því útlit fyrir að Akkiles sofi örvarlaus um hælinn í nótt. Naumu mátti muna áður hann stakk henni þangað sjálfur. Svefn er fyrir honum þessa dagana nokkuð sem menn gera aðeins ef þeir hafa ekkert betra að gera. En svo virðist sem nokkuð sannleikskorn sé í þeim einkunnarorðum Framsóknarflokksins sem haldið er á lofti fyrir hverjar kosningar, hver hljóða svo: „Þetta reddast“ (lat. Nunc est reddam).

Tristram og Ísold

31.
Runnu upp af leiðum þeirra
lundar tveir.
Upp af miðri kirkjunni
mætast þeir.
– Þeim var ekki skapað nema að skilja.

úr Tristranskvæði.

Klassískur rómans og afskaplega fallegt kvæði. Hinsvegar má deila um hvort sýn Salvadors Dalí hafi verið sérstaklega rómantísk eða falleg. Raunar má deila um hvort nokkuð af því sem hann gerði hafi verið fallegt, þótt óumdeilanleg sé snilld hans. Hvað sem því líður má finna nálgun Dalís hér.

Þá nær málverk Rogelio de Egusquiza, „Tristan et Isolde (La Mort)“ frá 1910, ef til vill anda kvæðisins betur. Það má finna hér. Misjöfn er listin.

Viðauki um Tristranskvæði
Síðast uppfært þann 22. febrúar kl. 15:15
Tristranskvæði er líkast til ort á 14. öld eftir Tristrams sögu ok Ísöndar, sem aftur er rituð á 13. öld að enskri fyrirmynd. Tristrams saga er raunar talsvert ævintýralegri en kvæðið. Sagan rekur uppruna sinn til keltneskra þjóðflokka í norður-Frakklandi og elstu heimildir um söguna eru frá tólftu öld. Hún hefur verið til í ýmsum útgáfum, þær heillegustu afrit af útgáfu Gottfrieds von Straßburg, en upphaflega sagan mun vera löngu glötuð. Hér má finna upplýsingar um tilurð sögunnar og hér má sjá hvaða útgáfur spruttu upp af ljóði Tómasar breska. Tristranskvæði hefur að mestu verið þýtt yfir á rússnesku, Баллада о Тристраме (Ball’ada ó Trístramje), og það má finna hér. Erindið sem ég vitna til hér að ofan er númer 22 í rússnesku útgáfunni og þýðingin er nokkuð nákvæm. Sjálfsagt er tilviljun að það rímar:

22.
На могилах их два древа
взросли тогда,
они встретились пред церквью
навсегда.
(Им судьба судила разлучиться.)

Til eru a.m.k. þrír rithættir á nafni Tristrans (Tristans, Tristrams) og jafnvel fleiri á nafni Ísoddar (Ísöndar, Ísoldar, Ísólar). Sjálfur tala ég iðulega um Tristram og Ísold. Ísönd mun þó vera upprunalegastur íslenskra ritháttu.