Sigurskáldið 2006

Í Fréttablaðinu er viðtal og mynd af sigurskáldinu 2006. Kemur í ljós að það er fyrrum bekkjarsystir til tveggja ára og skólasystir til átta ára þaráofan, Ásta Heiðrún. Sendi henni hamingjuóskir með hugskeyti, nema svo ólíklega vilji til hún lesi þetta, þá fær hún þær einnig á prenti.

Sjálfur sendi ég ekkert inn. Álit mitt á þessari keppni kemur raunar skýrt fram í því að ég hef ekki bloggað um hana fyrr.

Þessi færsla er í raun endurritun á færslu sem ég skrifaði klukkan níu í morgun, hvar ég þvísemnæst skeindi mér á þessari tilgerðarlegu ljóðakeppni forlags sem ekki gefur út ljóðabækur nema fyrir mögulegan ágóða eða bara til að segjast gefa út ljóðabækur, veitir sjálfum keppendunum ekki verðlaun, aðeins kjósendum, og það þá ekki einu sinni ljóðabækur heldur skáldsögur. Ég hinsvegar birti ekki þá færslu vegna þess mér fannst óviðeigandi að óska Ástu til hamingju með sigur í keppni í sömu færslu og ég drulla yfir téða keppni. Ég sé hinsvegar ég hef gert það aftur. Kannski eru það forlögin sem haga þessu þannig.

Leiðrétting: Ég sá það á öðru bloggi að vissulega voru sigurverðlaun, það munu hafa verið ljóðasöfn.