Mataræði og útivist

Fann loksins ullarpeysuna sem amma prjónaði á mig haustið 2004. Hún er hlý og góð og kom sér vel áðan þegar ég gekk út í búð að kaupa framúrstefnuleg matvæli. Framúrstefnuleg fyrir mig, því ég borða einungis óhollustu. Þá er ég ekki að segja að súrmjólk með púðursykri og bananabitum sé neitt sérlega hollur matur nema í litlu magni, en það er þó skref í áttina. Skrítið að verða saddur á svona sulli, það er eins og ég hafi ekki borðað neitt, bara bægt frá hungri. Já, ég er svona ruglaður. Er ekki vanur að borða staka máltíð sem ekki inniheldur einhvers konar kjöt.

Þessu samhliða ætla ég að stunda mikla útiveru í sumar, eða eins mikla og vinnan leyfir á annað borð. Fái ég draumastarfið verð ég ekki mikið úti fyrr en eftir klukkan sjö á kvöldin. En já, göngutúrar í sumarblíðu, það er stefnan. Ætla að prófa að tölta yfir hrygginn neðan við hús föður míns í Grafarholtinu strax eftir próf. Svo er von mín að ég megi yfirgefa bæinn sem oftast yfir sumarið. Reyna að njóta náttúrunnar meðan hún er til.