Sjoppuferð í Grafarholti fyrir hálftíma

Eftirfarandi frásögn er eins nálægt raunveruleikanum og ég kæri mig um. Nógu nálægt, semsagt:

Ég: Gott kvöld.
Afgreiðslusprund: Góða kvöldið.
Ég: Ég ætla að fá ostborgara og franskar.
Sprundið: Svona númer tvö þá? [bendir á upplýst skilti – 750 krónur fyrir ostborgara, franskar, kokteilsósu og kók]
Ég: Er það eitthvað ódýrara ef ég sleppi kókinu og kokteilsósunni?
Sprundið: Viltu semsagt sleppa kokteilsósunni?
Ég: … já, og kókinu.
Sprundið: Það kostar það sama.
Ég: Engu að síður vil ég sleppa kókinu.
Sprundið: Það er ekki hægt.
Ég: Nú … ?
Sprundið: Þú ert samt rukkaður fyrir það skilurðu.
Ég: Geturðu ekki bara skilið það eftir í kælinum samt?
Sprundið: Nei.
Ég: Ertu þyrst?
Sprundið: Ha?
Ég: Hvað segirðu um að ég kaupi handa þér kók? [blikka hana lymskulega]
Sprundið: Ertu að reyna við mig?!
Ég: Nei, [andvarpa þungan] hvað ef ég GEF þér kókið?
Sprundið: Ég má það ekki!
Ég: Já en … ! Æ, allt í lagi, gleymdu því. Ég skal kaupa kók. [greiði sprundi 680 krónur]

Ég les grein í blaðinu Blaðinu um komu Gorbatsjevs meðan sprundið steikir ketið, hugsa jafnt sprundi sem Gorbatsjev þegjandi þörfina. Eftir skamma bið skellir sprundið poka og kókflösku á afgreiðsluborðið:

Sprundið: Gjörðu svo vel!
Ég: Takk. [geng í burtu án þess að taka kókið]
Sprundið: Ertu að gleyma kókinu þínu??
Ég: Já! [fer út]

Brot úr degi

Það er ekki amalegt að vakna og uppgötva plastbrot í fætinum. Ekki veit ég hvernig það komst þangað. Ekki veit ég heldur hvað verður af smábrotunum sem urðu eftir þegar ég beitti flísatönginni of harkalega. Kannski færast brotin smám saman inn að miðju fótar og gleymast þar eins og rusl undir gömlum jarðlögum.