Svaðilför og bókakaup

Í gærkvöldi klukkan 23:55 skrifaði ég, en fjarlægði um hálftíma síðar:

„… kisan þarf á dýraspítala í fyrramálið, bakvaktin neitaði að taka við henni núna. Meinið fannst rétt í þessu, það er vinstri afturfótur. Sársaukafullt augnaráðið þegar ég snerti á fætinum nísti mig í innsta stað, og samt virðist greyið ekkert þjást er hún gengur. Ég get aðeins vonað að það sé ekkert alvarlegt.“

Það reyndist ekki meira en svo að það er ekkert að henni, utan að mögulega er hún alvarlega breima. Ótrúlegt! Fyrir þá vitneskju, góð sem hún er, fékk ég að skrúbba hland af kettinum, svo mjög naut hún sinnar fyrstu bílferðar í búri. Hún verður aldrei sett í búr aftur, fjandinn fari því fjarri! Rúmlega fimmtán ára gömul fékk hún þó a.m.k. að fara fyrsta sinni í bað.

Eftir stríð í baðkerinu sem endaði með hundblautum ketti og blóðugum fingri í sprittvotri grisju hélt ég niður í bæ til að skipta tveimur bókum sem ég fékk í stúdentsgjöf. Keypti í þeirra stað The Globe Illustrated Shakespeare – Complete Works Annonated og Turninn eftir Steinar Braga (sem virðist við fyrstu sýn töluvert fallegri bók en Áhyggjudúkkur (menn farnir að gefa sénsa)). Þriggja binda verkið Íslensk tunga keypti ég ekki því það var búið að hækka aftur verðið á því. En þá gefst mér færi á að spyrja fróða lesendur, áður en ég kaupi það, hvort það sé ekki áreiðanlega allt sem það virðist vera – algjör snilld semsagt?

2 thoughts on “Svaðilför og bókakaup”

  1. Jú, þetta síðasta svíkur mann ekki. Í þremur bindum er þarna saman kominn slíkur hafsjór af fróðleik að fyrir nýnema í greininni hljóta þetta að vera skyldukaup. Í nánast öllum námskeiðum er hægt að vísa á bindin sem ítarefni. Þarna er t.d. ágæt samantekt um báða meistarana, Arngrím og Vídalín. 😉
    Assg. líst mér annars vel á að þú skulir ætla að nema íslensku. Ég man ekki í hvaða námskeið ég er skráður í haust en kannski maður rekist á þig og hafi af þér nokkrar glósur. 😉

  2. Já, það er aldrei að vita. Djöfulli hlakka ég til!
    Og ef eitthvað liggur fyrir mér að gera, þá er það að kaupa þessar bækur.

Lokað er á athugasemdir.