Að morgni

Strætóbílstjórinn í morgun var nærri búinn að fletja út konu. Gott hún hljóp. Synd að hann hægði ekki á sér, óþverraskepnan. Svo keyrði hann eins og vitfirringur alla leið upp í Kringlu. Held hann hafi ekki einu sinni gert sér grein fyrir því, þessi andskotans raspútíndrakúla.

Á laugardagskvöldið vændi mig maður um að vera ókúltíveraður, á sjálfu Café Kúltúra. Tjáði hann mér að skortur minn á fágun sæist langar leiðir, þar eð vasaklútur minn var úr hvítu silki og líni, en bindið í eilítið rjómalitaðri hvítum tón. Nú hef ég staðfest á öllum helstu klæðaburðssíðum veraldarvefsins, að maðurinn hafði rangt fyrir sér, líkt og ég bar fyrir mig téð kvöld. Þannig er nefnilega mál með vexti, að hvítur silkivasaklútur fer með öllu, óháð munstri, en vasaklútar í öðrum litum fara eingöngu með hálsklæðum í sama tón og með sama munstri. Hvernig gæti annars hvítur vasaklútur verið klassískur með svörtu bindi, svari hann því, helvítis anórakkauminginn. „ÉG ætti að vita það,“ segir hann. Piff!

Þessa stundina stend ég vaktina á bókasafninu. Leikskólabörn syngjandi alþjóðlegan verkamannasöng, eins og komumst við að úti í Finnlandi, og þó ekki Nallann. Líst mér á! Svo er það Bókabíllinn á eftir. Það verður dæmalaust stuð. Það skipti ekki einu sinni neinu sérstöku máli þótt vinnan hér væri ekki frábær, sem hún er. Það nægir nærri því að geta sagst vinna á bókasafni til að vera kúlissímús. Þeir sem trúa því ekki skulu horfa á kvikmyndina The Librarian: Quest for the Spear og láta sannfærast.

Meðan Hvaldór sagði af sér í gærkvöldi var ég að horfa á öllu áhugaverðara myndefni, nefnilega X-men 3. Þegar ég kom heim var sýnt þriggja mínútna myndskeið af fréttamönnum að elta Guðna Ágústsson um Þingvelli, sem átti í mesta basli við að tala í símann fyrir ágangi fréttamanna. Það var pínlegra en skemmtidagskráin á Keflavíkurflugvelli þegar Ingólfur Bjarni stalkeraði Fischer. Það hefur aldrei verið verra að vera Framsóknarmaður.
Í framhjáhlaupi sagði mér auglýsing í bíóinu í gær að andkristur kæmi í dag, þann sjötta sjötta núllsex. Það hlýtur að vera nýr forsætisráðherra. Alltaf vissi ég að Geir væri eitthvað vafasamur. Nema sé það Finnur Ingólfsson.

3 thoughts on "Að morgni"

  1. Björn skrifar:

    Þú ert orðinn spenntur fyrir The Librarian 2: Return to King Solomon’s Mines, ekki satt?

  2. Arngrímur skrifar:

    Hafði ekki heyrt um hana. Greinilega skylduáhorf hverjum bókaverði, enda má margt af þessum myndum læra.

  3. Björn skrifar:

    Noah Wyle er mikill viskubrunnur.

Lokað er á athugasemdir.