Föstudagsmorgunn – hljómar eins og þversögn

Klukkan er kortér yfir ellefu og ég á ekki að mæta til vinnu fyrr en klukkan eitt, á móti kemur að ég vinn til lokunar. Veðrið er gott fyrir þá sem ætla að vera inni, ekki nærri eins hryssingslegt eins og á mánudagskvöldið en talsvert meira rok. Gerði tilraun og lagaði tvo og hálfan bolla í kaffivél sem bíður aðeins upp á heila bolla. Aðeins fyrir fagaðila, ekki gera þetta heima hjá ykkur.

Alveg áreiðanlega, svona þegar maður veltir því fyrir sér, er til a.m.k. einn þrýstihópur fyrir því að kaffivélar framtíðarinnar hafi sérhak milli heilu bollanna til að auðvelda mönnum að laga hálfa. Það eru til þrýstihópar fyrir öllu, eins og sá í Bandaríkjunum sem berst fyrir réttindum sínum til að laðast að börnum. Það eru til vinsælli þrýstihópar.

Nú er orðið ansi langt síðan ég fór nógu snemma á fætur til að geta gert allt sem ég vildi fyrir vinnu, t.d. fá mér morgunverð. Enn hef ég ekki fengið mér morgunverð. Nei, ég fékk mér kaffi, og ég bloggaði um það. Svo þykist ég á engan hátt vera firrtur. Ég nenni ekki að fá mér morgunverð.