Skáldin hjálpast að

Það er oftar eins og að tilheyra stórri fjölskyldu en opinberu battaríi að vinna á Borgarbókasafni. Núna áðan hringdi í mig Einar Ól. skáld neðan af Aðalsafni í leit að bók sem týnst hafði í kerfinu. Þá hafði bókin ratað inn í geymslu hjá mér án þess nokkur vissi af því.
Um daginn sá ég svo um millideildalán sem annar bókavörður mér að nokkru kunnugur hafði komið að.
Annað skemmtilegt við vinnuna á safninu eru sögurnar. Hér er til dæmis ein:

Maður kom inn á bókasafn, steðjaði að upplýsingaborðinu og vildi fá upplýsingar um hvað orðið „ættleri“ þýddi. Því var flett upp fyrir hann og honum gefið ljósrit af merkingu orðsins. Hann las vandlega, leit svo upp, barði hnefanum í lófa hinnar handar og sagði: „Nú skal helvítið aldeilis fá að finna fyrir því!“

Annars horfði ég á Bogart-mynd í gær, The Treasure of the Sierra Madre. Hún var frábær, eins og allt annað sem ég hef séð með honum (að þessari undanskildri hef ég séð Casablanca, The Maltese Falcon, The Big Sleep, Sabrina, The Caine Mutiny og The African Queen). Næsta mynd á dagskrá er Sahara, en hana hef ég aðeins séð í lélegri endurgerð með James Belushi. Eiginlega skiptir ekki máli hvernig sjálf myndin er, það nægir að Belushi sé í henni. Þar liggur nefnilega munurinn: Bogart er gæðastimpill, Belushi er það ekki.