Saga úr Bókabílnum

Þessa heyrði ég og fannst hún of góð til að sleppa henni. En svo birti ég ekki fleiri:

Hjón á áttræðisaldri komu að Bústaðasafni. Maðurinn beið í bílnum, en þar sem Bókabíllinn stóð á hlaðinu ákvað konan að kíkja fyrst þangað að gá að ákveðinni bók. Henni var vísað í safnið, en það sá eiginmaðurinn ekki.
Stuttu seinna ók Bókabíllinn af stað og eiginmaðurinn elti, alla leið upp í Grafarvog, þar eð hann hélt að verið væri að ræna konunni sinni. Þegar bíllinn loks nam staðar kom sá gamli á harðaspretti inn, mjög æstur, og hrópaði á steini lostið starfsfólkið: „Hvar er konan mín, hvar hafið þið hana?!“
Gamli maðurinn var róaður og sagt að konan væri í Bústaðasafni. En þá kom upp annað vandamál, maðurinn hafði aldrei í Grafarvog komið, og þurfti að lóðsa hann út úr hverfinu.

Ljóta sumar

Þetta ætlar nú að verða meira sumarið. Eitt ljóð hefur mér tekist að yrkja það sem af er sumri (þyrfti helst að semja tuttugu til viðbótar). Ljóðið lýsir kannski frekar veðrinu en raunverulegum atburðum, auk þess er umfjöllunarefni ljóðsins aukaatriði og víkur fyrir veðurfarslýsingu fremur en öfugt. Það er svosum nógu viðeigandi fyrir þetta sumar að yrkja ljóð þar sem veðrið drepur rómantíkina. Svo er aftur annar handleggur hvort það telst birtingarhæft.

Horfði á Sahara með Bogart rétt í þessu. Hún er góð, ekki eins og endurgerðin. Þó var Frakkinn meira sannfærandi í endurgerðinni. Þjóðverjinn og yfirbretinn voru svo aftur nákvæmlega eins.