Tvennt vinnutengt

Í dag tók ég á móti bók um vampírur á safninu. Hún angaði öll af reykelsi. Greinilegt að hún hefur verið „notuð“. Það sem kemur ekki inn á borð til mín.

Annars virðist fólk almennt eiga mjög erfitt með að gera sér grein fyrir því að ég vil ekki að hringt sé í mig þegar ég er í vinnunni, né þá heldur að það getur ekki undir nokkrum kringumstæðum talist eðlilegt að fólk eyði heilu og hálfu vinnudögunum í einhverju prívatstússi. Ekki skipti ég mér af því þótt ónefndir aðilar á safninu séu símalandi í símann, en ég ætla heldur ekki að vera ónefndur aðili á þessu safni. Annað hvort er maður í vinnunni eða maður er að leika sér. Það er svo einfalt. Ég fyrir mína parta geri mitt besta til að standa mig vel á mínum vinnustað.

Dæmisaga dagsins er þessu tengd. Þegar ég vann í IKEA var nefnilega náungi að vinna í næstu deild sem virtist ekki eiga sér nokkurt annað hlutverk í búðinni en að tala í símann. Þegar síminn var tekinn af honum brást hann hinn versti við og þvertók fyrir að hafa ofnotað hann. Þetta kom sér illa fyrir okkur hin, því þetta var eini síminn í grenndinni, og það var vont á álagstímum að geta ekki hringt í yfirmann á ögurstundu.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hann hafi verið vinsæll eftir það.