Hraundrangi

Ekki skal heldur gleyma að ég dró Alla með mér upp að Hraundranga í Öxnadal. Ég var kominn upp talsvert á undan Alla, svo ég átti stund þar uppi, einn með sjálfum mér, einn í heiminum, ég og dranginn.

Ástarstjörnuna vantaði þó því miður, enda vorum við þar um síðdegið. En ég fann kraftinn í umhverfinu engu minna. Stund til að hugsa skýrt, fjarri öllu öðru en náttúrunni og niðnum í lækjunum sem streymdu ofan fjallið. Og þetta var aðeins byrjunin á sams konar upplifunum. Enn er Skaftafellið eftir, þó ég nefni ekkert fleira.

Café Amour

Ekki eins rómantískt og maður gæti haldið, sér í lagi á kvöldin, þegar dýrin hið innra fara á stjá.

Annars skartar Akureyri sínu fegursta. Eins og alltaf. Aldregi verður til ófögur Akureyri, sama hvað himpigimpið hann Orfeifur segir.

Já, og fornbókabúðin hér er dásamleg. Þar keypti ég mér nýjan Þórberg í safnið, og Góða dátann, það væri enda með öllu ótækt að sleppa tækifærinu til að losa sig við kiljuskræður í stað innbundinna doðranta.

Sauðárkrókur er skrítinn …

Á eyrinni

Sit með Alla inni á kaffihúsinu Langa Manga á Ísafirði. Ferðin hingað hefur fráleitt verið klakklaust ævintýri. Ef ekki væri fyrir hjálpsemi ókunnugs snillings í Þorskafirði er óvíst hvar við værum staddir í dag (í engu er þessi mynd ýkt, hún er tekin á vestfjörðum).

Annað sem vert er að minnast á er að ferðin er álíka undirbúin og flugslys, svo mikil ævintýri eiga enn eftir að gerast. Þannig viljum við hafa það. Frjálsir sem fuglinn, engin vegaáætlun. Takmörkuð í besta falli.

En ferðasagan er eigi öll fyrr en að dálitlum tíma liðnum. Kemur út í þremur bindum ef svo fer fram sem farið hefur hingað til. Lifum við af bakaleiðina af Kjálkanum? Hvað gerist á Siglufirði? Verða hetjur okkar rifnar á hol af refastóði á Melrakkasléttu? Allt saman og meira til á þessum síðum í september!

Vegbúinn

Ég er farinn þangað sem vindurinn ber mig.

Þú færð aldrei að gleyma þegar ferðu á stjá.
Þú átt hvergi heima nema veginum á.
Með angur í hjarta og dirfskunnar móð
þú ferð þína eigin ótroðnu slóð.

Vegbúi, sestu mér hjá. Segðu mér sögur,
já segðu mér frá. Þú áttir von
nú er vonin, farin á brott flogin í veg.

Eitt er að dreyma og annað að þrá
þú vaknar að morgni veginum á.

Kristján Kristjánsson

Kvöldið

Upplesturinn gekk vel. Kvöldið gekk vel. Fyrir tilviljun endaði það á laginu Alice eftir Tom Waits:

It’s dreamy weather we’re on
You waved your crooked wand
Along an icy pond with a frozen moon
A murder of silhouette crows I saw
And the tears on my face
And the skates on the pond
They spell Alice

I disappear in your name
But you must wait for me
Somewhere across the sea
There’s a wreck of a ship
Your hair is like meadow grass on the tide
And the raindrops on my window
And the ice in my drink
Baby all I can think of is Alice

Arithmetic arithmetock
Turn the hands back on the clock
How does the ocean rock the boat?
How did the razor find my throat?
The only strings that hold me here
Are tangled up around the pier

And so a secret kiss
Brings madness with the bliss
And I will think of this
When I’m dead in my grave
Set me adrift and I’m lost over there
And I must be insane
To go skating on your name
And by tracing it twice
I fell through the ice
Of Alice

And so a secret kiss
Brings madness with the bliss
And I will think of this
When I’m dead in my grave
Set me adrift and I’m lost over there
And I must be insane
To go skating on your name
And by tracing it twice
I fell through the ice
Of Alice
There’s only Alice

Starfslok og Menningarnótt

Allt getur þessi maður látið hljóma eins og hin mestu vísindi, þótt hér sé kannski enn fremur um alþýðuspeki að ræða, enda perestaltíkin afar mismunandi eftir hver á í hlut. Sjálfur reyndi ég sem mest að ræða téða perestaltík síðast ég var í útlöndum, en menn gáfust iðulega fljótlega upp á að ræða hana við mig, með meinlegum áminningum á borð við: „Gaur!“ og: „Gerirðu þér grein fyrir að þú ert að tala um … !?“. Enda áreiðanlega eins fjarri því að vera svo andlegir sem Dalai Lama og hægt er!

Síðasti dagurinn í Kringlusafni í dag. Það finnst mér afskaplega leiðinlegt, en ég fékk þó góðar kveðjur með von um frekari farsæld í starfi, helst á safni, jafnvel á sama safni. Það þótti mér vænt um. En við sjáum til á hvaða safni ég hafna.

Annars er hér tilkynning:

Af dögum liðnum, líðandi, komandi

Fallegur morgunn á fyrsta degi Bókabílsins eftir sumarfrí, og jafnframt síðasta starfsdegi mínum þar. Allra síðasti dagurinn minn á safninu á morgun. Umsókn mín um áframhaldandi starf í vetur liggur inni, en óvíst er hvar mér verður komið fyrir. Er eiginlega ekki reiðubúinn að hætta í Kringlunni, en það er víst lítið sem ég gæti gert ef ég verð sendur eitthvert annað.
En það var fínt að fá að vera á bílnum í dag, gaf mér tóm til að setjast niður milli tarna á elliheimilum, í blómaangan, sólskini og gosbrunnaniði, með sígarettu og hugsanir mínar einar. Margt sem hægt er að leiða til lykta í huganum þegar maður loks fær frið frá áreiti hversdagslífsins. Oft er rólegt á bílnum. Þess vegna kann ég því vel að vera þar.

Kannski sérstaklega í dag, því annars er allt búið að vera brjálað að gera þessa síðustu daga. Við höfum verið að skipuleggja upplestur Nykurs á Menningarnótt, nánast allt komið á hreint þar.

Svo höfum við Alli verið að skipuleggja tveggja vikna hringferð um landið, á enn eftir að verða mér úti um ýmislegt! Einu reddaði ég í dag, léttu og hæfilega stuttu lesefni til að hafa með mér. Tók mér á safninu Hvar frómur flækist, fjórar ferðasögur Einars Kárasonar. Auk þess hef ég með ljóðasafn Ísaks Harðarsonar, Ský fyrir ský. Það ætti að duga. Ferðin sjálf ætti svo að duga mér til vinnu að fyrsta hluta bókarinnar minnar, auk þess að sjálfsögðu að sjá landið, skemmta mér og þar fram eftir götunum.

Umsókn mín um námslán kemst ekki til afgreiðslu fyrr en eftir að ég er farinn, svo ég þarf að fara í talsverðar útréttingar í sambandi við þau úti á landi. Sem ég vona að verði minna vesen en öll tilefni standa til. Ég þarf nefnilega framfærslulán strax í september, ef ég á að geta keypt mér skólabækur. Auk þessa alls er svo margt annað fleira sem ég þarf að klára áður ég fer á sunnudagsmorgninum. Margt fleira sem ég man ekki allt hvað er, fokkfokkfokkfokk …

Og aldrei get ég munað eftir að kaupa kaffivél! Farinn að sjóða mér Kenýakaffi í espressokönnu. Niðurstaðan eitthvað í ætt við það sem Bjarti hefði þótt duga í að tjarga hrúta upp úr. Gæti allt eins étið það upp úr pakkanum!

Á sunnudegi miðvikudags

Veðrið var dásamlegt klukkan tíu í morgun þegar ég hljóp niður Túngötu í allsherjar óðagoti, hafandi sofið yfir mig og misst af strætó. Sólin streymdi fram af laufunum eins og gullregn yfir gangstéttarnar, fuglarnir sungu og tjörnin glitraði í átt til mín alla leið eftir Tjarnargötu inn á Kirkjustræti, hvar ég hljóp í humátt að Austurvelli. Hvergi bíll í sjónmáli – eins og það á að vera. Miðbær Reykjavíkur á sunnudagskjólnum, kaffiangan út af Brennslunni, yfirgnæfandi Apótekshúsið skýlandi leyfunum af Austurstræti frá mildheitri sólinni á heiðum himninum, Lækjartorg lifandi af fólki. Já, í alvöru! Þar stóð ég sneyptur í um þrjár mínútur og velti fyrir mér hvort það væri í raun og veru þess virði að fara í vinnuna – og svarið er: Nei, það var það ekki – og þá kom strætóinn.

Ég get samt ekki annað en verið í undir meðallagi sneyptur, því mér gafst loksins nægt tóm í gærkvöldi til að greiða úr óreiðunni í huga mér, koma örlitlu niður á blað, og lagfæra ýmislegt í bókinni minni. Í fyrsta sinn síðan í apríl get ég því sagt að ég sé að gera nokkurn skapaðan hlut við hana. Það nægir til að sólin skíni örlítið líka hér inni.

Kennslukona kvödd

Heyrst hefur að Guðrún Sigurðardóttir, enskukennari við MS, sé látin eftir áralanga baráttu við krabbamein. Ég kunni afskaplega vel við Guðrúnu og við spjölluðum oft dágóða stund ef við mættumst á götu, lengur og innilegar með hverju skipti. Raunar er aðeins örstutt síðan ég hitti hana síðast, í lok apríl eða byrjun maí. Hún leit betur út en ég hafði séð hana lengi og þess vegna komu tíðindin dálítið flatt upp á mig. Get aðeins vonað hennar vegna að það hafi verið friðsælt.