Stutt bæjarferð

„Hey, piltur! Mig vantar hundraðkall upp í pela.“ Ég stóðst ekki svona hreinskilni og gaf honum helming, sem var allt sem ég átti. Þvínæst sagði ég honum aðspurður hvað ég ynni við, og hann svaraði um hæl að enda þótt hann hefði bókasafnskort fengi hann aldrei að hafa með sér neinar bækur. Ég sagði honum að það væri ósanngjarnt og hann ætti að kvarta, safnið væri í eigu fólksins, óháð því hvaða fólk ætti í hlut. Við þetta hresstist hann og sagðist ætla rakleiðis á safnið, og við kvöddumst.

Las í gær Fjórar línur og titil eftir Braga Ólafsson. Það voru ljótu vonbrigðin verð ég að segja. Auk þess vissi ég ekki að bókin væri eins konar safnrit. Áðan las ég svo Ást á grimmum vetri eftir Sigtrygg Magnason. Sumt af því sem þar stendur er nokkuð sniðugt, eins og Friedrich Nietzche með vasabókina sína á kaffihúsi. Annað hálfbrútalt og ógeðslegt, eins og Ást í tvílyftu timburhúsi. Get ekki sagt að ég hafi heillast.

Annars er bara ágætt svona við og við að upplifa ástand þegar enginn texti sem maður les getur náð til manns. Því hver veit nema þá fæðist eitthvað í manns eigin hugskoti sem vert væri að setja niður á pappír.

Svo langar mig að vita hvaða vitleysingur komst hér inn með þessum leitarorðum!

2 thoughts on “Stutt bæjarferð”

  1. Ég held að Cave hafi spilað á Casablanca þegar hann kom fyrst. Eða kannski var það Safarí — ég veit ekki, var ekki þar.
    Svo er ljótt að heyra að drykkjurútar fái ekki lánaðar bækur. Ef þeim hugnast bækurnar, ætti að leyfa þeim að sitja með í bókabílnum.

  2. Nú, ókei, ég hafði ekki einu sinni heyrt af staðnum. Hljómar eins og staður fyrir mig.
    Reyndar væri fullmikið fyrir bókaverði að leyfa nokkrum að sitja með í bílnum, en auðvitað er það hreint og klárt kjaftæði að leyfa ekki fólki að taka út bækur vegna einhverrar ofurtýpískrar samfélagslegrar mismununar. Sé maðurinn með skírteini eins og hann heldur fram, þá er það hreint og klárt brot á stefnu safnsins að lána honum ekki. Nema hann sé beinlínis til vandræða inni á safni.

Lokað er á athugasemdir.