Um framtíðina

Arkaði frakkalaus af stað út í gamla vesturbæinn í léttu roki niður á Laufásveg þar sem beið mín bíll. Þaðan hélt ég í Kópavog að sækja frakkann sem gleymdist á Ísafirði í síðasta mánuði. Ísafjarðarlognið hefur fylgt frakkanum alla leið suður, því algjör stilla var komin á þegar ég skilaði bílnum af mér aftur.

Gekk í húminu og kyrrðinni meðfram tjörninni undir blikandi norðurljósum og fannst ég vera aleinn í heiminum. Fljótlega fóru ótal hugrenningar að svífa á mig, í fyrsta sinn á ævinni veit ég nefnilega ekki hvað tekur við að loknu þessu, hvað þetta nákvæmlega er sem ég er einu sinni að gera, hvað það nákvæmlega er sem mig langar að gera.

Kannski er ég ekki tilbúinn til að eyða bestu árunum á skólabekk, árunum sem ég hef til að gera það sem mér sýnist þegar mér hentar. Árunum áður en lífið staðnar og dauði dagvinnunnar hefst. Hvað langar mig til að gera? Ekki veit ég það. En er þetta akkúrat nákvæmlega það sem ég vil gera og starfa við í framtíðinni, það er ég ekki svo viss um lengur. Og þarmeð er fasti punkturinn í tilverunni fokinn. Það eina sem ég var alltaf viss um.

2 thoughts on "Um framtíðina"

  1. Avatar Harpa J skrifar:

    Er efi ekki bráðnauðsynlegur öllum (hugsandi) ungum mönnum?

  2. Draumur úthverfastráksins, að stunda íslensk fræði í vesturbænum.
    Ef til vill er það til marks um að kannski verði maður aldrei fyllilega ánægður?

Lokað er á athugasemdir.