Myrkvun Höfuðborgarsvæðisins

Vegna skipulagsklúðurs við að verða mér úti um bifreið komst ég ekki lengra en upp í Öskjuhlíð til að njóta myrkursins. Vafalaust hefði ég heldur átt að taka einn göngutúr um Vesturbæinn, þannig hefði ég notið þess betur. Líður þá og bíður uns rafmagnslaust verður í Vesturbænum. Þá er ég þotinn út með hatt minn og staf.

Eitthvað hefur ef til vill verið um skipulagsklúður meðal borgar- og bæjayfirvalda stór-Reykjavíkursvæðisins sömuleiðis. Eitthvað þótti mér gruggugt um að litast yfir Kópavoginn ofan úr Perlu og þegar ljósin voru kveikt á nýjan leik varð ég ekki var við neinar róttækar breytingar þar í bæ. Eiginlega alls engar. Og hvers vegna enginn slökkti á ljóskösturum kirknanna veit ég ekki, en þær voru ekkert of heilagar til þess að mínum dómi.

Raunar var þokkaleg stemning í Perlunni. Þar var margmenni komið saman og enda þótt stjörnurnar sæust ekki, þá var dáldið sérstakt sjá myrkrið yfir borginni. Og þegar ljósin voru kveikt, þá upplifði ég dálítið magnað. Skyndilega birtist Seltjarnarnesið eins og fyrir galdur út úr myrkrinu. Það var greinilega staður kvöldsins, þar hafa menn jafnvel slökkt á kertum svo þeir gætu notið myrkursins betur. Og þar hefði ég átt að vera.