Umræðan

Skyndilega sprakk út í Bloggheimum eldheit umræða um trú á móti vantrú í kjölfar bakþankapistils Davíðs Þórs Jónssonar um téð efni.

Nú var það síst ætlun mín að blanda mér inn í þessa umræðu, en sú spurning brennur á mér hvort sé umræðan díalektísk í eðli sínu, eða a priori málaflækjur í ætt við það sem Sókrates nefndi sófisma. Hið fyrra felur í sér lausn vandamálsins en hitt ekki.

Það skiptir mig svosum engu máli. Trúleysi jafnt sem afstæðishyggju virðist sífellt vaxa fiskur um hrygg á kostnað stofnanavæddra trúarbragða. Á móti kemur að líklega mun fólk alltaf trúa því sem það vill trúa.

Sjálfur tel ég að opinská umræða sé alltaf af hinu góða, jafnvel þótt menn verði æstir og snurða hlaupi á þráðinn. Í það minnsta er umræða sú sem nú er í gangi aðeins nýjasti hlekkurinn í keðju umræðna sem nær allt aftur til siðskipta, jafnvel lengra ef vel er að gáð. Og líklega er þess ansi langt að bíða að sjái til botns.

Sér í lagi þegar umræðan gengur í hringi.