Daglega brauðið

Átti alveg afskaplega slæman dag í gær, varð bara verri og verri eftir því sem á leið. Undir miðnætti var ég orðinn verulega gramur. Dagurinn í dag hefur verið fínn til mótvægis, að veðri undanskildu. Himinninn hefur raunar verið afar íburðarmikill og blandast vel við haustlitina. En litirnir hverfa óðum í haustrokinu sem nú dynur yfir. Það þykir mér alltaf jafn leiðinlegt.

Ræddi við Hall yfir msn í gær og get nú ekki komið þeirri hugmynd úr kollinum að flytja til Kaupmannahafnar næsta vetur og læra norræn fræði, nú eða bara bókmenntir. Með þetta fast í huganum hljóp ég niður í pósthús um hádegisbil að póstleggja bréf sem ég náði ekki að senda frá Danmörku. Ég hef áður sagt einhversstaðar á þessum síðum að einhverra hluta vegna vilji hann alltaf rigna þegar maður þarf að póstleggja bréf. Því til vitnis grétu himnarnir örfáum tárum yfir mig er ég gekk út á Austurstræti bara svona til að stríða mér örlítið.

Hélt ekki einbeitingu í hljóðfræðinni hjá Eiríki Rögnvalds fyrr en ég fékk síðasta verkefni aftur í hendurnar. Hélt að maðurinn gæfi ekki fullt fyrir verkefni. Metnaðurinn fylgdi mér í hérumbil hálftíma á eftir. Svo fór ég aftur að hugsa um útlönd til mótvægis við innlönd og sú hugsun situr enn föst í hugskoti mér. Nú hefur Jón Örn gefið kost á sér í væntanlega frægðarför til Parísar í desember og er það vel. Með hann í fararbroddi er ómögulegt annað en við lendum í háskamiklum ævintýrum. Jafnvel gæti svo farið að við vöknuðum skyndilega í vitlausu landi. Strax farinn að hlakka til.