Thor og ég

Snilld dagsins: Smjör … var Michelangelo búinn með allan marmarann sinn? Ég meina, það liggur í hlutarins eðli!

Keyrði pabba á Leifsstöð á einhvers konar nátíma í nótt. Kvikindið farið að sprella í Skotlandi eins og einhver unglingur á fyrsta fylleríi. Verð að bæta því við að ég er stórhrifinn af þessu umferðarátaki lögreglunnar í Reykjavík – fékk lögreglufylgd frá landamærum Reykjavíkur og Birgisbæjar nær alla leið heim að dyrum. Löppin í nástöðu á leyfilegum hámarkshraða allan tímann. Orðið nár sem forskeyti kemur tvisvar fyrir í þessari einu efnisgrein. Je.

Á leiðinni úr skóla í vinnu í dag mætti ég Thor Vilhjálmssyni í umferðinni. Allt nánasta umhverfi við bifreið Thors fylltist goðsagnakenndum og ljóðrænum blæ og hjarta mitt sló þungan undan hámenningarárásinni sem það var að mæta honum á gatnamótum. Varð strax hugsað til eftirfarandi málsgreinar úr Grámosinn glóir:

„Hún lagðist þar og beið hans opin og glennti sig sundur í tilgerðarlausri ákefð sinni, og hann kom yfir hana hægt, studdist á handleggi sína, og lét kónginn inn stutt, bara kóng, dró hann út, færði hann aftur inn, og þá hóf hún sig næstum ofsafullt, keyrði ólgandi skaut sitt upp, og dreif hann allan markvisst svo djúpt sem mátti, og hann fann safa hennar í ofgnótt svella og gjósa um gand sinn allan, svo tók í sálina með ljúfri svalandi dýrð.“

Farir þú heill, Thor Vilhjálmsson, hvar svo sem bíl þinn rekur niður!

Undarlegar draumfarir

Ég hrökk upp í morgun af nokkuð sérstökum draumi sem varð þó ekki að martröð fyrr en undir það allra síðasta. Hef hugleitt hann þónokkuð í dag án þess að komast að nokkurri niðurstöðu.

Flest þau sem þekkja mig ættu að vita að ég hef mikla tilhneigingu til að leyfa draumum að hafa áhrif á mig, til lengri eða skemmri tíma. Það hefur enda sýnt sig að oft getur það verið þess vert að rifja þá upp til að setja þá í samhengi við annað sem síðar kom á daginn.

Þar kemur skáldskapurinn inn í. Í tilviki drauma er skáldskapurinn veruleikanum raunverulegri. Þess vegna kann ég að meta drauma, hvort sem þeir eru góðir eða slæmir, og kynstrin öll sem draumar geta af sér.