Davíð Stefánsson um Endurómun upphafsins

Endurómun upphafsins„Það eru ó! í þessari bók. Og þau eru ekki sett fram í hæðni hrútspungsins eða annarra súrsaðra kynfæra heldur í fúlustu alvöru; þau eru mælt fram vegna þess að ó! er vel fram mælanlegt og gjaldgengt til tjáningar. Þarna eru líka blóm, og hrafnar, og stjörnubjartur himinn, og sólstafir, og röðulgeislar – hellings aragrúi af fallegum fyrirbærum sem fáir skilja lengur, í raun og veru.
Samt er Endurómun upphafsins ekki rómantísk bók, ekki í þeim skilningi að allt skuli dýrkað sem fagurt er, bara vegna þess og þess vegna. Hún er hálf-rómantísk, þannig, að í stað þess að sneiða framhjá því sem kalla mætti eðlislæga þörf manneskjunnar fyrir rómantík og fagurfræði tekur hún á þessum fyrirbærum og kljáist við rómantískar tilhneigingar sem eru illa gjaldgengar í „tough-love-bling-bling-pow-wow“ heimi. Hér fer fram tveimur lýsisglímum samtímis – í annarri slæst Arngrímur við hefðina með samtímann að vopni og í hinni berst Vídalín við samtímann með rómantískan kuta. Enn hefur enginn farið með sigur af hólmi, þótt á halli.
Við höfum stigið langt inn í heim sýndarveruleikans, og þá gildir einu hvort við blekkjum okkur til að halda að heiminn sé að finna í raunveruleikasjónvarpi eða í ljóði – allir staðgenglar rjúfa tengslin við hinn raunverulega heim, eða, öllu heldur, afmá skilin á milli raunveruleika og skáldskapar. Hvar erum við? Hver erum við? Hvert förum við?
Ljóð eru ekki frumheimild um heiminn. En ljóðabókin sem hvílir á fingrum mér er ári góð – vel ígrunduð og falleg átakabók, ekki hispurslaus (enda eiga ljóð ekki að vera hispurslaus) heldur lúmsk og undirförul, í jákvæðasta mögulega skilningi þeirra orða.“

-Davíð A .Stefánsson.