Uppboðshúsið í eyðimörkinni

Undarleg tilfinning þegar strætóbílstjórinn yfirgaf vagninn orðalaust og hljóp inná Grandakaffi í andlega yfirhalningu. Einn inni í vagninum sat ég og horfði yfir höfnina á borgina hinumegin. Skrítið að ég hafi aldrei tekið eftir því áður að Grandinn stendur eiginlega utan þéttbýlis. Reykur sté upp frá borginni hér og hvar, datt ekkert í hug því til útskýringar. Greinilega sveif þó mistur yfir borginni sem ekki sást annarsstaðar ef litið var til annarra átta.

Það var einmitt þegar ég leit við að ég tók fyrst eftir nokkru stórfurðulegu, og þá á ég ekki við Listasetur Lafleurs. Ofan á berggrunni, sem helst leit út eins og rústir, stóð Uppboðshús Jes Zimsens líkt og það hefði aldrei staðið annarsstaðar. Lögunin á grjótaþyrpingunni minnti með öllu á Lækjartorg, Grandakaffi á svipuðum slóðum og pylsuvagninn, rústir einar þar á milli, hjallar um kring að undanskilinni Tónlistarþróunarmiðstöðinni sem leist hafði Stjórnarráðið af hólmi. Og þar stóð þessi gamli bárujárnsklæddi timburkumbaldi með öllum sínum kunnuglegu merkingum á rammskökkum viðarplanka negldum eftir húsinu endilöngu: Frímerki, bækur, antík, fágætir munir – Jes Zimsen. Leifar af leigubílastöð við annan gaflinn, úrelt símanúmer, brotið ljósaskilti. Í þessum hugleiðingum kom bílstjórinn aftur. Liðnar voru tuttugu mínútur.

Það var einhver heimsendablær yfir þessu öllusaman. Það var sem þetta væri eina eftirstandandi hús sinnar kynslóðar í Reykjavík, póst-apokalyptískir pönkarar sestir við stjórnvölinn eins og í Mad Max, kindarlegt listasetur og olíutankar uppistaða menningarlífsins. Allt þetta þegar í reyndinni er það svo að enn eitt húsið sem tengir Reykjavík eigin forsögu er komið á haugana. Að því sögðu er kannski óþarfi að geyma allt. Eftir sem áður:

Rætur fyrirtækisins liggja allt til ársins 1894 er Jes Zimsen stórkaupmaður hóf rekstur umfangsmikils verslunarfyrirtækis í Reykjavík.
Skipaafgreiðsla var deild innan þess þar til hún varð sjálfstætt fyrirtæki árið 1932 og var þá kölluð Skipaafgreiðsla Jes Zimsens. Starfsemin hefur breyst verulega í áranna rás og eigendaskipti hafa orðið nokkrum sinnum. Í upphafi hafði skipaafgreiðsludeild Jes Zimsens umboð fyrir Sameinaða gufuskipafélagið (DFDS), danskt fyrirtæki sem var í siglingum milli Íslands og Danmerkur.
– tekið af tvg.is

Hér vantar stórt stykki í söguna. Engar upplýsingar finnast um húsið, nema afturganga liðins heimilisfangs í einhverslags fyrirtækjaskrá. Ég kannski kemst ekki að neinu á netinu, en ég er að hugsa um að rölta þarna úteftir á morgun og taka mynd til að eiga. Húsið var víst fjarlægt vegna tónlistarhúss sem verður nánast á annarri lengdargráðu. Talandi um undarlega peningasóun. Það er líka svo skrítið þegar þeir fjarlægja heilu húsin. Það er svo skrítið þetta mannvistarlandslag.

2 thoughts on "Uppboðshúsið í eyðimörkinni"

  1. Avatar Einar J skrifar:

    Tók einmitt eftir þessu í sumar eftir að húsið var flutt af sínum gamla stað. Við hliðina á því stóð ekki síðra hús, Norðurpóllinn sem var eins konar litla kaffistofa síns tíma og stóð ofarlega á Laugarvegi. Er það enn þá þarna eða er búið að finna því varanlegan samastað?

  2. Það var ekki þarna svo ég tæki eftir. Ég vona að það sé ennþá til, af því ég kem því ekki fyrir mig í svipinn, en ef til vill kannast ég við það ef ég sé það.
    Það eru svo mörg hús sem maður tengir við ákveðna tíma, t.d. sjoppan í Borgartúni sem hvarf undir háhýsi. Ekki merkilegt hús þannig lagað, en ég sakna þess.

Lokað er á athugasemdir.