Hrefnur

Áðan ók ég á nýja bílnum mínum út í búð, þar sem ég endaði á að kaupa mér hval á grillið. Á leiðinni heim tók ég eftir að búðin stendur við Hvaleyrarbraut, sem reyndist liggja í boga upp á nærliggjandi holtið og niður aftur þar sem hún tengist Hringbrautinni beint.

Hvaleyrin sjálf var merkileg útlits en ekki kann ég söguna af þessari nafngift; hvort þar hafi eitt sinn strandað hvalur eða þeim verið slengt á land þarna úr skipunum.

Þegar heim kom bar ég drasl inn úr bílnum og nagladekkjunum henti ég niður í geymslu. Þegar ég ætlaði að verðlauna mig með hvalnum mundi ég að sjálfsögðu eftir að gaskúturinn er uppi á Öldugötu og sömuleiðis hnífapörin.

Fyrst ég er á annað borð að skrifa um hvali má bæta því við að þegar ég var lítill hélt ég því oft fram við Hrefnu frænku mína að með lambhúshettu á höfðinu liti hún út eins og hvalur. Þá vissi ég ekki að kjötið góða kæmi af samnefndri skepnu.