18 thoughts on “Svör óskast”

  1. Þetta hef ég aldrei heyrt… Og þó… Kanski útlendinga sem að eru að taka fyrstu skrefin í tungumálinu eða þá lítil börn.

  2. Ég sting upp á að þú skoðir líka aðeins flóknari tilvik en persónufornafn+vil hlið við hlið. Það virðast t.d. margir gera þetta 3p.+vil klúður í tilvísunarsetningum, prófaðu að gúgla „sem vil“.
    Hún fjallar um strák sem vil komast út í heiminn en pabbi hans leifir honum það ekki.
    http://bokaormar.khi.is/sidur/titill.asp?nafn=Hodja+og+t%F6frateppi%F0
    Sumarfrí sem vil engan endi taka
    http://hello-kitty-fan.bloggar.is/blogg/239321/
    Ég er frjálslyndur jafnaðarmaður sem vil jöfnuð og frelsi í samfélaginu,
    [hér á sem að vísa í frj.jm. en ekki ég]
    http://www.audvaldid.com/2002/09/24/g-er-frjlslyndur-jafnaarmaur-sem-vil/
    Svo er það þessi ofurölvi áhorfendi sem vil halda fram að hann muni ekkert eftir þessu (góð afsökun hjá drukknu fólki sem hefur gert einhvað skandall í fyllerínum).
    http://www.123.is/DJ_Storhofdi/default.aspx?page=home&sa=GetRecord&id=115973
    Fuffa er dekurrófa sem vil bara croissant í morgunmat og ef það er ekki nógu heitt fyrir hana, þá fer hún í fílu!:)
    http://jahernamig.blogspot.com/2006/01/komin-i-sveitina-vei-vei-vei.html
    Hún leitar enn eiganda sem vil nota hana. Er til í að skipta á henni og macro linsu eða góðum þrífæti.
    http://www.ljosmyndakeppni.is/viewtopic.php?t=16079&highlight=&sid=2abe5e2a744e892cd0fc55112388bbee
    vinstri bakvörður sem vil pottþétt koma. Verð skiptir ekki máli.
    http://www.liverpool.is/forum/tm.asp?m=303799&mpage=4
    Ég rauk af stað með grey Iðunni sem vil alltaf halda hópnum saman
    http://steina.blog.is/blog/steina/entry/284594/

  3. Hmm… Mér finnst eins og ég hafi heyrt þetta hjá eldra fólki, og dettur í hug að það séu dönskuáhrif frekar en beinlínis persónuflakk.

  4. Alli: Lítil börn, kannski. Þó hæpið (sjá neðar).
    Esther: Ég tel það sé ein möguleg útskýring að þetta sé að einhverju leyti tilkomið fyrir áhrif leiðréttingar, eins og t.d. nýja þolmyndin. Þó finnst mér að eitthvað fleira hljóti að búa að baki.
    Anton: Ég þakka kærlega þessa ábendingu, hún kemur sér vel þegar kemur að því að semja dæmaspurningar, ég er að hugsa um að gera þetta að rannsóknarverkefninu mínu. Ef það er leyfilegt þá þætti mér ekki verra að hafa þig með.
    Eiríkur: Ég gæti trúað fólki af vissum kynslóðum til að bera vill fram eins og Dani, þ.e. [vIl:] í stað [vItl]. Hér er þó ný áhrifsbreyting á ferðinni sem virðist brjóta í bága við sjálfgilda mörkun, þ.e.a.s. fyrsta persóna er notuð í stað þriðju persónu (hún vil) en ekki öfugt (ég vill), eins og börn við máltöku myndu gera (talið er að þau myndi fyrstu persónu útfrá stofni þriðju persónu + beygingarendingu fyrstu persónu).
    Ég er enn að kynna mér þetta nánar. Í millitíðinni væri frábært að fá fleiri athugasemdir.

  5. „Ég er frjálslyndur jafnaðarmaður sem vil jöfnuð og frelsi í samfélaginu,
    [hér á sem að vísa í frj.jm. en ekki ég]“

    Þetta eru áhrif frá frumlagi, frekar algengur ruglingur meðal ungs fólks. Ef tengingin og hefði verið valin væri málsgreinin tæk en þó lítið eitt merkingarlega frábrugðin, þar sem löngun í jöfnuð og frelsi tengdist því ekki sérstaklega að viðkomandi sé frjálslyndur jafnaðarmaður.

  6. Hef aldrei heyrt neinn þetta.
    En er ekki líklegt að eitthvað af skriflegu dæmunum af netinu séu hreinar innsláttarvillur? Fólk ætli að skrifa vill en flýti sér of mikið og það komi vil?
    Viðkomandi myndi samt segja vill í daglegu tali. Tek það fram að þetta er ekkert annað en hugdetta hjá mér, afar óvísindalegt.

  7. Jú, ég set þann fyrirvara á, enda ærin ástæða til. Í grein í Íslensku máli og almennri málfræði frá 2005 tiltekur Haraldur Bernharðsson þó dæmi af netinu þar sem villan er viðvarandi innan sama texta, og virðist það benda til þess að þetta samræmist málkennd sumra.
    Eitt þeirra dæma sem Haraldur tiltekur: Hann vil fá konuna sem hann elskar hvað sem það kostar. Hún vil einungis frelsið sem Thelma og Louise dásama svo mjög.
    Mér vitanlega hefur ekki verið gerð rannsókn á þessu í skólakerfinu enda er þetta ansi fáheyrð málnotkun. Hinsvegar er málfræðingum engin afsökun að því, og mér hugnast síður en svo illa að leggja grein Haraldar til grundvallar slíkrar könnunar.

  8. Þetta finnst mér mögnuð umræða. Málfræðiáhuginn hjá manni fer að blossa upp aftur.

  9. Já, ég færist nær því að þetta sé ofvöndun fremur en alhæfing; það stenst betur útfrá málfræðilegu sjónarmiði. Það er þá eðlismunur en ekki stigs á ég vill og hún vil. Dæmið væri þá sambærilegt nýju þolmyndinni: það var bara lamið hann.
    Einnig hallast ég að því að Gunni þurfi að hætta þessu sagnfræðistagli og koma þangað sem fjörið er!

  10. Jú ég á vinkonu sem segir þetta! Byrjaði sennilega á því á barnsaldri en er komin yfir tvítugt í dag. Ég hef einmitt hallast að því að um ofvöndun sé að ræða, tilkomna af leiðréttingum ég vill-sins í bernsku. Mér fannst mjög spes að heyra þetta fyrst…
    En þá langar mig að vita afhverju Arngrímur hafi farið að velta einmitt þessu fyrir sér?

  11. Ég frétti af grein Haralds Bernharðssonar (Íslenskt mál og almenn málfræði árg. 27, 2005:63-101) í tíma fyrr í dag og las hana. Mér fannst þetta svo merkilegt að ég sótti um að fá að rannsaka þessa málbreytingu í skólum og fékk leyfi til.
    Málbreytingar verða flestar einmitt til meðal ungra málhafa, og mér finnst bráðnauðsynlegt að rannsaka þær áður en kennarar kveikja á perunni, leiðrétta allt fjandans til og skapa enn eina gloríuna á borð við mig hlakkar og það var lamið mig, þar sem síðarnefnda dæmið verður til á þeirri fölsku forsendu að aukafallsfrumlög séu annaðhvort óæskileg eða hreinlega ekki til.
    Tilfellið virðist þannig vera að umvöndun leiði af sér ofvöndun. Verður fróðlegt að sjá hversu útbreytt þetta er.

  12. ég spurði kennarann minn í grunnskóla að þessu fyrir samræmdu prófin, en hún gat ekki svarað mér. man svo eftir umræðu um þetta út frá persónum, þ.e. ég vil, hún vill o.s.frv

  13. þetta „vil-dæmi“ hef ég oft heyrt hjá yngri börnum.
    veistu hvort einhver hefur rannsakað breytinguna sem er að verða með sögnina að spá? kannski bara standard þágufellska að segja: „spáðu í því.“

  14. Líklega, en ég veit ekki hvort það hefur verið skoðað sérstaklega. Hinsvegar hef ég ekki orðið var við að fólk sé mikið að leiðrétta þetta, nema þá bróðir minn. Ég sagði spáðu í því allt fram á átjánda ár þegar hann leiðrétti mig.

Lokað er á athugasemdir.