Hvað er ég að gera spyrjiði?

Til að svara þessari spurningu án þess ég þurfi að útskýra það fyrir ólíku fólki oft á dag þá er ég að lesa greinar eins og þessa til að auka skilning minn á viðfangsefni daganna:

„Ef unnt er að greina eitthvert mynstur sem talist getur einkennandi fyrir eintölubeygingu íslenskra sagna í germynd ætti það samkvæmt kenningu Wurzels að teljast grunnmynstur eintölubeygingarinnar í germynd. Eðlileiki annarra mynstra ræðst svo af því hve vel þau samræmast grunnmynstrinu; það er hið svokallaða kerfissamræmi. Eftir því sem tiltekið mynstur í eintölubeygingunni er líkara grunnmynstrinu þeim mun eðlilegra telst það og að sama skapi líklegra til að varðveitast í beygingarkerfinu. Á hinn bóginn er hætt við að eintölumynstur sem illa samræmist grunnmynstrinu taki breytingum og verði smám saman líkara grunnmynstrinu eða samhljóma því. þannig má segja að í beygingarkerfinu sé stöðug tilhneiging til að viðhalda kerfissamræmi. Þess væri þá að vænta miðað við þessa kenningu Wurzels að umræddar breytingar á eintölubeygingu sagnarinnar vilja væru ekki einföldun beygingarinnar einungis einföldunarinnar vegna, heldur breytingar sem færðu beyginguna í eðlilegra mynstur; slík breyting gæti vitaskuld falið í sér einföldun þó að hún þyrfti ekki að gera það.“

– Haraldur Bernharðsson. Ég er, ég vill og ég fær, bls. 74. Íslenskt mál og almenn málfræði, 27. árg. Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík, 2005.

Ef ykkur fannst þetta ekki áhugavert getiði semsé sleppt því að spyrja í framtíðinni. Ef ykkur á hinn bóginn fannst þetta áhugavert er ykkur líklega ekki viðbjargandi. Eina ráðið við því er að skrá sig í íslenskunám.

2 thoughts on “Hvað er ég að gera spyrjiði?”

  1. Ein algengasta sögn í íslensku tilheyrir sjaldgæfum beygingaflokki. Miðað við hlutfallslega notkun er því ekki óeðlilegt að hún færist milli beygingaflokka án þess að um gagngera einföldun á beygingu hennar sé að ræða.

Lokað er á athugasemdir.