Ad hominem

Ég hef heyrt margstaðar frá að Aron Pálmi hafi varla stigið fæti út af öldurhúsinu síðan hann kom hingað. Fólk virðist almennt hissa á því. Það bjóst kannski við að hann yrði skipaður héraðsdómari?

Hýpóþetikal

Aðaluppistaðan í þeirri ansi hreint ósjarmerandi fæðu sem ég lifi á er kjöt. Nauta- og lambalundir er eitthvað það albesta sem ég fæ. Ég er ekki klár á því hvernig þessum skepnum er slátrað eða hverslags tól eru notuð til að búta þær niður til að færa mér vöðva þeirra á diski, löðrandi blóðuga með sinum og öllu. Svo fremi sem ég veit gæti þetta allt eins verið mannakjöt. Í fyllstu hreinskilni finnst mér þetta ansi viðbjóðslegt, en það er líka viðbjóðslega gott á bragðið.

Spurningin er þá þessi: Þegar maður fer á veitingastað og pantar sér steik, hvaða máli skiptir eitt hár til eða frá? Það kemur ekkert slæmt fyrir þótt ég plokki hárið af og taki til við að rífa skepnuna í mig. Í langversta falli þarf ég að bíða annan hálftíma eftir annarri steik ef ég kvarta, nema þá að hárið sé hágeislavirkt og springi við kjöraðstæður í einhverslags efnahvörfum við kjötið ef ég kvarta ekki, annars er ansi hreint lítið sem gæti komið fyrir. Í þau skipti sem kötturinn sofnar hjá mér vakna ég með nógu mikið af hárum uppi í mér til að búa mér til annan kött, og fyrst ég dey ekki af því þá dey ég ekki þótt eitt mólekúl af hárgeli endi á blóðugri steik minni alsettum sinum og – guð hjálpi okkur – gegnsteiktum steindauðum agnarsmáum sníkjudýrum sem enginn tæki nokkru sinni eftir.

Guð hjálpi þeim sem finnur hár á fiskinum sínum og finnst það ógeðslegra en hringormarnir í fiskinum sjálfum en er samt ekki það pjattaður að hann þori ekki að greiða sér á morgnana. Svo gæti sama fólk gæti tekið upp á því að kyssa lík í kistulagningu – nokkuð sem ég skil en get sjálfs mín vegna ekki hugsað mér að gera. En hár á matnum, o seisei nei. Með fullri virðingu finnst mér að kvarta undan stöku hári í matnum álíka órasjónal eins og að varpa handsprengju til að losna við dordingul úr baðkerinu. Ég raunar skynja mig dáldið einan í þeirri afstöðu.